Jólalokun Ráðgjafar- og greiningarstöðvar 2023 - Counselling and Diagnostic Centre is closed between Christmas and New Year

Afgreiðsla og sími Ráðgjafar- og greiningarstöðvar er lokaður milli jóla og nýárs. Áríðandi erindi má senda á netfangið rgr@rgr.is og verður því svarað eins fljótt og auðið er. Gleðilega hátíð!

Ráðgjafar- og greiningarstöð óskar gleðilegra jóla!

Starfsfólk Ráðgjafar- og greiningarstöðvar óskar samstarfsfólki gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Þökkum góð samskipti og samvinnu á árinu sem er að líða.

Námskeiðsdagskrá RGR á vorönn 2024 liggur fyrir!

Námskeiðsdagskrá vorannar Ráðgjafar- og greiningarstöðvar 2024 er nú aðgengileg á vef stöðvarinnar. Alls verða 19 námskeið kennd á tímabilinu; allt námskeið sem henta aðstandendum barna með þroskafrávik og fatlanir sem og fagfólki sem vinnur með börnum.

Allt um ástina - nýtt námskeið!

RGR kynnir nýtt námskeið sem heitir Allt um ástina sem kennt verður 6. des. nk. Námskeiðið, sem bæði er kennt staðbundið í Bóksafni Kópavogs (Hamraborg 6) og í fjarfundi (Zoom) er ætlað kennurum og starfsfólki sem kenna unglingum með öðruvísi taugaþroska í efstu bekkjum grunnskóla og á starfsbrautum framhaldsskóla. Farið verður yfir námsefnið sem er aðgengilegt á vef á vegum Menntamálastofnunar og er án endurgjalds. Námsefnið fjallar um sjálfsmyndina, mikilvægi þess að standa með sjálfum sér, hreinlæti og líkamstjáningu. Einnig er farið yfir ástarmálin út frá ýmsum hliðum, samanber hvað er daður, hvernig kynnist maður öðrum með náin sambönd í huga og hvað greinir á milli heilbrigðra og óheilbrigðra ástarsambanda.

Ert þú 8 - 18 ára með hreyfihömlun og langar að æfa íþróttir.

Sunnudaginn 12. nóvember hefst röð kynninga á íþróttum fyrir börn 8-18 ára gömul sem eru hreyfihömluð eða sjónskert. Kynningarnar verða í höndum afreksíþróttafólksins Hákons Atla Bjarkasonar og Örnu Sigríðar Albertsdóttur. Hákon er einn fremsti borðtennismaður landsins í dag og Arna Sigríður var fulltrúi Íslands á Tokyo Paralympics þar sem hún keppti fyrst Íslendinga í handahjólreiðum. Kynningarnar munu fara fram í húsnæði ÍFR að Hátúni í Reykjavík og er sú fyrsta næstkomandi sunnudag 12. nóvember þar sem Arna og Hákon munu kynna fyrir gestum badminton og pikkelball ásamt reyndum þjálfurum og öðru afreksfólki úr röðum fatlaðra. Sjá nánar um dagsetningar kynninganna hér að neðan á meðfylgjandi plakati.

Ársskýrsla Ráðgjafar- og greiningarstöðvar fyrir árið 2022 liggur nú fyrir

Lög stofnunarinnar breyttust 1. janúar 2022 og við þau tímamót breyttist nafn Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins í Ráðgjafar- og greiningarstöð, samhliða nýju og breyttu hlutverki. Mánuði síðar varð breyting á skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta og við það færðist stofnunin frá félagsmálaráðuneytinu til mennta- og barnamálaráðuneytisins. Á haustmánuðum urðu síðan enn önnur tímamót en þá flutti starfsemin í nýtt og heppilegra húsnæði í Dalshrauni í Hafnarfirði eftir 34 ára veru á Digranesvegi í Kópavogi.

Laus sæti á námskeiðið Öðruvísi taugaþroski - áskoranir unglingsáranna 8. nóvember

Ráðgjafar- og greiningarstöð auglýsir laus sæti á námskeiðið Öðruvísi taugaþroski - áskoranir unglingsáranna sem haldið verður nk. miðvikudag 8. nóvember. Fjallað verður um ódæmigert þroskaferli, styrkleika, áskoranir og hvernig það er að vera öðruvísi. Rætt verður um áhrifaþætti varðandi sjálfsmynd, líðan, samskipti og tengsl þeirra við geðheilsu svo sem kvíða og þunglyndi. Ennfremur verður farið yfir samspil þroska og færni í daglegu lífi og hvernig skipulag og aðlögun umhverfis getur stuðlað að aukinni þátttöku og lífsgæðum ungmenna í þessum hópi.

RGR lokuð vegna kvennaverkfalls 24. október / RGR closed 24 October due to women´s strike

Ráðgjafar- og greiningarstöð styður jafnréttisbaráttu kvenna og kynsegin fólks. Stofnunin er því lokuð vegna kvennaverkfalls þriðjudaginn 24. október 2023, hvorki síma né erindum er svarað þann dag. Ef erindið er mjög áríðandi má senda tölvupóst á rgr@rgr.is. // Councelling and Diagnostic Centre supports demand for equal rights for women and non binary. The Center is therefore closed 24 October due to Women´s strike. Neither phone calls nor emails will be answered that day. If your matter is very important you can send an email to rgr@rgr.is. 

Námskeiðið Skólafólk, ráð og leiðir haldið 6. nóvember

RGR vekur athygli á lausum sætum á námskeiðinu Skólafólk, ráð og leiðir sem haldið verður þann 6. nóvember nk. frá kl. 9.00 – 15.00 fyrir starfsfólk grunn- og framhaldsskóla sem eru með nemendur með frávik í taugaþroska og vilja auka við þekkingu sína. Námskeiðið verður haldið í Rauða kross salnum í Hafnarfirði, Strandgötu 24.Mikið af hagnýtum ráðum, leiðum og verkfærum eru til og verða kynntar á þessu námskeiði. Farið verður í fyrirbyggjandi aðferðir, hvernig við gerum æskilega hegðun sýnilegri í skólanum og einblínt á jákvæðar aðferðir. Mælt er með að horfa á styrkleika og áhugamál nemenda en auk þess mikilvægt að skoða hvernig við tökumst á við erfiða hegðun í skólaumhverfinu.

Systkinasmiðjur í október fyrir systkini fatlaðra barna og barna með þroskafrávik

Systkinasmiðja fyrir börn á aldrinum 7 - 11 ára verður kennd í húsnæði Ráðgjafar- og greiningarstöðvar um næstu helgi, 21. - 22. október en helgina 28. - 29. október verður Systkinasmiðja fyrir börn á aldrinum 12 - 14 ára. Námskeiðið er ætlað systkinum fatlaðra barna og barna með þroskafrávik. Börnin leysa verkefni með leiðbeinendum, ræða stöðu sína innan fjölskyldunnar, skólans og meðal vina. Einnig ræða þátttakendur hvernig þeir leysa úr erfiðleikum sem verða á vegi þeirra, meðal annars vegna systkina og margt fleira.