Þroskahömlun

Þroskahömlun einkennist fyrst og fremst af frávikum í vitsmunaþroska og aðlögunarfærni. Við  greiningu á þroskahömlunar á Íslandi er stuðst við flokkunarkerfi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar ICD 10.  Þroskahömlun er metin með stöðluðum greindarprófum og mati á aðlögunarfærni.

Samkvæmt þessu flokkunarkerfi er þroskahömlun skipt í fjögur stig.

F70 Væg þroskahömlun, greindarvísitala 50-69

F71 Miðlungs þroskahömlun, greindarvísitala 35-49

F72 Alvarleg þroskahömlun, greindarvísitala 20-34

F73 Djúp þroskahömlun, greindarvísitala <20.

Einkenni

Einkenni þroskahömlunar birtast á ólíkan hátt eftir aldri barnsins. Á leikskólaárunum birtist þroskahömlun oft þannig að barnið er seint að ná ákveðnum þroskaáföngum. Seinn hreyfiþroski er oft það fyrsta sem vekur áhyggjur og síðan er það seinn málþroski. Á þessum árum eru erfiðleikar í félagslegum samskiptum við jafnaldra oft ein birtingarmynd þroskahömlunar, einnig sýna börnin oft erfiða hegðun. Á grunnskólaárum birtist þroskahömlunin yfirleitt sem miklir námserfiðleikar og einnig erfiðleikar í félagslegum samskiptum við jafnaldra. Alltaf er mikill einstaklingsmunur til staðar og börn með þroskahömlun eru með ákveðna styrkleika og veikleika í þroska. 

Tíðni

Tíðni þroskahömlunar virðist hafa verið nokkuð stöðug í gegnum tíðina og má segja að hún sé svipuð í flestum vestrænum ríkjum. Þroskahömlun er algengasta fötlunargreining barna undir 18 ára aldri en búast má við að 1-2% barna séu með þroskahömlun. Á Íslandi má því búast við 40-90 börnum í hverjum árgangi. Langstærsti hópurinn er með væga þroskahömlun. Þroskahömlun er ekki endilega óbreytanlegt ástand og alvarleiki þroskahömlunar getur breyst í tíma. Með markvissri þjálfun og endurhæfingu er stundum hægt að hafa jákvæð áhrif á þroskaframvindu.

Orsakir

Orsakir fyrir þroskahömlun geta verið af ýmsum toga. Í meirihluta tilfella er ekki hægt að finna orsök fyrir þroskahömlun. Oft er þó um líffræðilegan vanda að ræða eða frávik í taugaþroska. Erfðir og litningafrávik geta verið skýring þroskahömlunar (t.d. Downs-heilkenni) og stundum getur hún verið afleiðing áfalla (t.d. sjúkdóma eða slysa).

Fylgiraskanir

Rannsóknir hafa sýnt að geð- og hegðunarraskanir eru allt að fjórum sinnum algengari hjá börnum með þroskahömlun en börnum almennt. Algengustu raskanirnar eru ofvirkniröskun, hegðunarerfiðleikar, kvíðaraskanir og þunglyndi. Mikilvægt er að greina þessar fylgiraskanir hjá börnum með þroskahömlum til að veita viðeigandi meðferð.

Framvinda og horfur 

Færni barna með þroskahömlun ræðst bæði af þroskastöðu og þeim stuðningi sem börnunum og fjölskyldum þeirra býðst í samfélaginu. Undanfarin ár hefur verið lögð mikil áhersla á snemmtæka íhlutun fyrir börn með þroskafrávik yngri en 6 ára til að draga úr áhrifum fötlunarinnar til frambúðar. Að sama skapi er lögð mikil áhersla á að börn fái markvissan stuðning í grunn- og framhaldsskóla. 

Frávikum í þroska fylgja umtalsverðir erfiðleikar í námi og félagslegri aðlögun. Nokkur hluti þeirra sem greinist með þroskahömlun þarf stuðning í tenglsum við atvinnu og búsetu en stór hluti býr við sjálfstæði á fullorðinsárum. Því markvissari sem stuðningurinn er á fyrstu þroskaárum því betur er einstaklingurinn undir það búin að takast á við daglegt líf á seinni æviskeiðum.