Þegar frumgreining bendir til alvarlegra raskana á þroska er það á ábyrgð þess sérfræðings, sem framkvæmt hefur athuganir að vísa barninu formlega til RGR. Sjá tilvísun - eyðublöð. Það er jafnframt á ábyrgð frumgreiningaraðila að stuðla að því að viðeigandi þjónusta, þjálfun og sérkennsla, hefjist sem fyrst.

Við frumgreiningu eru skráðir helstu þættir í heilsufars- og þroskasögu barnsins og fjölskylduaðstæður. Afla þarf upplýsinga um félagslega færni og líðan barnsins. Þegar um barn eða ungling á grunnskólaaldri er að ræða, þarf einnig að lýsa námsstöðu. Leggja þarf mat á vitsmunaþroska með viðurkenndu greindarprófi. Einnig þarf að fá upplýsingar um hegðun og líðan frá foreldrum, kennurum og öðrum umönnunaraðilum barns, m.a. með spurningalistum. Ef barn hefur verið í sérhæfðri athugun og íhlutun utan heimilis og skóla þurfa upplýsingar um niðurstöður slíkrar meðferðar að fylgja með tilvísun. Einnig þarf að greina frá fyrri athugunum, þroskamælingum og orsakarannsóknum ef við á.

Helstu erfiðleikar við frumgreiningu og óvissa varðandi tilvísun.
Þegar staðið er að athugun og greiningu þroskaraskana geta komið upp þær aðstæður að óvissa ríkir um niðurstöður og hvort vísa eigi barni á Ráðgjafar- og greiningarstöð. Algengustu vandamál varða ungan aldur barna, ofvirknihegðun og/eða skort á samvinnu við prófanir, mismunandi hegðun heima og í skóla, menningarmun, tví/margtyngi, vanrækslu eða ofbeldi. Í sumum tilvikum getur þurft að endurmeta stöðuna eftir íhlutun og ákveða þá hvort tilefni sé til tilvísunar á RGR.  Í óvissutilvikum er möguleiki að leita ráðgjafar hjá starfsfólki á inntöku- og samræmingarsviði Ráðgjafar- og greiningarstöð.

Starfsreglur vegna frumgreiningar vegna gruns um þroskahömlun: 

Frumgreining vegna gruns um þroskahömlun byggist á skilgreiningum á greiningarviðmiðum þroskahömlunar samkvæmt ICD-10. 
Eftirfarandi atriði þarf að hafa til hliðsjónar þegar staðið er að frumgreiningu þroskahömlunar hjá börnum:

  1. Lýsing á þroska- og heilsufarssögu barns, þ.m.t. sjón og heyrn.
  2. Lýsing á fjölskylduaðstæðum,þar sem fram koma upplýsingar um tví/margtyngi, systkini, heilsufar, aðstæður foreldra og samskipti við félagsmálayfirvöld ef við á, og fjölskyldusaga barns m.t.t. alvarlegra þroskaraskana og þroskahömlunar.
  3. Lýsing á félagslegri þátttöku og aðlögun.
  4. Lýsing á námsstöðu þegar um barn á grunnskólaaldri er að ræða.
  5. Mat á vitsmunaþroska með viðurkenndu þroskaprófi.
  6. Fyrir börn á aldrinum 0-3 ára er stuðst við Smábarnalistann og niðurstöður þroskaprófs Bayley (BSID-III). Fyrir börn á aldrinum 3-6 ára er stuðst við greindarpróf Wechslers (WPPSI-Rís) og fyrir börn og unglinga á aldrinum 6-16 ára er stuðst við greindarpróf Wechslers (WISC-IVís). Mikilvægt er að með tilvísun fylgi niðurstöður annarra athuguna sem kunna að liggja fyrir t.d. athugana talmeinafræðings, sjúkraþjálfara og iðjuþjálfa og niðurstöður taugasálfræðilegra prófana, sem varpað geta ljósi á afmarkaða færni og þroskaþætti hjá barni.
  7. Mat á hegðun, líðan og félagslegum samskiptum.
  8. Afla þarf upplýsinga um hegðun og líðan frá foreldrum, kennurum og öðrum umönnunaraðilum með spurninga- og matslistum (SDQ, CBCL/TRF, ADHD) og meta hvort til staðar séu einkenni á einhverfurófi (t.d. CARS, SCQ, ASSQ).

Alþjóðlega viðurkenndar skilgreiningar á þroskahömlun byggja annars vegar á mati á vitsmunaþroska og hins vegar á mati á aðlögun. Klíniskt mat á þroska og færni barns er einnig mikilvægt við greiningu á þroskahömlun og er í raun þriðja helsta stoðin, sem greiningin hvílir á.

Starfsreglur um frumgreiningu vegna einhverfurófsraskana

Frumgreining einhverfu tekur mið af skilgreiningum á greiningarviðmiðum einhverfu og einhverfurófsraskana samkvæmt ICD-10Eftirfarandi atriði þarf að hafa til hliðsjónar þegar staðið er að frumgreiningu einhverfurófsröskunar hjá börnum:

  1. Lýsing á þroska- og heilsufarssögu barns, þ.m.t. sjón og heyrn. Sérstaklega skal leitað eftir upplýsingum um stöðnun eða afturför í þroska á fyrstu aldursárum.
  2. Lýsing á fjölskylduaðstæðum þar sem fram koma upplýsingar um tví/margtyngi, systkini, heilsufar og aðstæður foreldra og samskipti við félagsmálayfirvöld ef við á, og fjölskyldusaga barns m.t.t. einhverfu og einhverfurófsraskana.
  3. Lýsing á félagslegri þátttöku og aðlögun.
  4. Lýsing á námsstöðu þegar um barn á grunnskólaaldri er að ræða.
  5. Mat á vitsmunaþroska með viðurkenndu þroskaprófi.
    Fyrir börn á aldrinum 0-3 ára er stuðst við Smábarnalistann og niðurstöður þroskaprófs Bayley (BSID-III). Fyrir börn á aldrinum 3-6 ára er stuðst við greindarpróf Wechslers (WPPSI-Rís) og fyrir börn og unglinga á aldrinum 6-16 ára er stuðst við greindarpróf Wechslers (WISC-IVís). Einnig er mikilvægt að með tilvísun fylgi niðurstöður annarra athuguna sem kunna að liggja fyrir t.d. athugana talmeinafræðings, sjúkraþjálfara og iðjuþjálfa, og niðurstöður taugasálfræðilegra prófana, sem varpað geta ljósi á afmarkaða færni og þroskaþætti hjá barni.
  6. Mat á einhverfueinkennum, hegðun og líðan.
    Meta þarf einhverfueinkenni (t.d. CARS, SCQ, ASSQ) og leita þarf eftir svörum foreldra, kennarra og annarra sem annast barnið við spurningalistum yfir hegðun, líðan og samskipti (SDQ, CBCL/TRF, ADHD).

Greining á einhverfu og röskunum á einhverfurófi byggir á skoðun sérhæfðs barnalæknis, greiningarviðtali, beinni skoðun á hegðun, þroskamælingum, spurningalistum um hegðun og líðan, upplýsingum frá skóla, ef við á, og þverfaglegu mati á þessum upplýsingum.

Starfsreglur um frumgreiningu vegna hreyfihamlana 

Frumgreining og greining á hreyfihömlun og sjónskerðingu byggir fyrst og fremst á þroskasögu, klíniskri skoðun, niðurstöðum úr læknisfræðilegum rannsóknum og öðrum sérhæfðum athugunum. Eftirfarandi atriði þarf að hafa til hliðsjónar við frumgreiningu á barni með hreyfihömlun.

  1. Lýsing á heilsufars- og þroskasögu barns, niðurstöður almennrar læknisskoðunar, taugaskoðunar og/eða taukaþroskamats. Sérstök lýsing á hreyfifærni og hjálpartækjum, þegar við á.
  2. Niðurstöður úr læknisfræðilegum rannsóknum þar með töldum heilaskönnum.
  3. Upplýsingar frá sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa eða talmeinafræðingi ef barn er í þjálfun.
  4. Lýsing á fjölskylduaðstæðum þar sem fram koma upplýsingar um systkini, heilsufar og aðstæður foreldra.
  5. Lýsing á námsstöðu, sérúrræðum í námi og félagsfærni þegar um barn á grunnskólaaldri er að ræða.

Starfsreglur um frumgreiningu vegna sjónskerðingar

Í gildi eru verklagsreglur um samstarf Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu og Ráðgjafar- og greiningarstöðvar vegna þjónustu við blind börn og sjónskert börn með viðbótarfatlanir. Markmið samstarfsins er að sérhæfð þjónusta stofnananna mæti sem best þörfum fatlaðra barna og fjölskyldna þeirra. Stefnt er að því að stofnanirnar vinni saman að þjónustu við barnið og hafi heimild til að samnýta upplýsingar að því gefnu að fyrir liggi upplýst samþykki frá viðkomandi aðstandendum og/eða frá barninu sjálfu.

Eftirfarandi atriði þurfa því að liggja til grundvallar við frumgreiningu þegar um er að ræða barn með sjónskerðingu eða blindu.

  1. Lýsing á niðurstöðum sjónskoðunar. Lýsing á sjónnýtingu og almennri færni.
  2. Lýsing á heilsufars- og þroskasögu barns, niðurstöður almennrar læknisskoðunar, taugaskoðunar og/eða taugaþroskamats.
  3. Nánari upplýsingar frá Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga (áður Sjónstöð íslands) t.d. frá sjónráðgjafa, umferliskennara eða blindrakennara, þegar við á.
  4. Sérstök lýsing á málþroska, hreyfifærni og félagsþroska ef grunur leikur á að barn sé með viðbótarfötlun.
  5. Upplýsingar frá sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa eða talmeinafræðingi ef barn er í þjálfun.
  6. Lýsing á fjölskylduaðstæðum þar sem fram koma upplýsingar um systkini, heilsufar og aðstæður foreldra.
  7. Lýsing á námsstöðu, sérúrræðum í námi og félagsfærni þegar um barn á grunnskólaaldri er að ræða.