Á Ráðgjafar- og greiningarstöð starfa sérfræðingar úr flestum þeim fagstéttum sem koma að þroskafrávikum og fötlunum barna og metur hver þeirra með viðurkenndum aðferðum þá þætti sem hann hefur sérþekkingu á.

Mismunandi er hversu margar eða hvaða fagstéttir koma að greiningu og ráðgjöf hverju sinni. Það fer meðal annars eftir aldri barnsins og aðstæðum en einnig eftir því um hvaða þroskafrávik er að ræða. Athuganir og viðtöl fara ýmist fram á Ráðgjafar- og greiningarstöð eða í daglegu umhverfi barnsins; heima og í skólanum eða hvort tveggja. Samstarf við fjölskyldu og fagfólk utan stofnunar er ávallt hluti af greiningunni. Auk þátttöku í þjónustu við börnin og fjölskyldur þeirra, sinna sérfræðingar stofnunarinnar að fræðslustarfi og rannsóknum.

Atferlisfræðingar

Atferlisfræðingar koma að vinnu með börnum til þess að auka færni þeirra í daglegu lífi. Í því felst að kenna þeim það sem skiptir þau og fjölskyldu þeirra máli, til dæmis að tjá sig, klæða sig sjálf, nota klósett, sofna sjálf, sofa nóttina í gegn og að borða fjölbreyttari fæðu. Atferlisfræðingar leggja ríka áherslu á að vinna eftir gagnreyndum aðferðum og nýjustu rannsóknum hverju sinni. Aðkoma atferlisfræðinga er metin eftir þörfum hvers barns. Atferlisfræðingar koma að vinnu með þeim börnum sem sýna litlar framfarir í íhlutun í leikskólum. Þá metur atferlisfræðingur færni barnsins, greinir námsvandann og leggur upp leiðir með starfsfólki og foreldrum að því markmiði að barnið nái betri árangri.

Í vinnu með börnum sem hafa þróað óæskilega hegðun, miðar vinna atferlisfræðings að því að skilgreina og skilja vandann. Greining byggir yfirleitt á viðtali við foreldra og stundum við starfsfólk sem vinnur með barninu, auk beinnar athugunar á hegðun barnsins í daglegu umhverfi þess. Í framhaldi af því er annað hvort gert kerfisbundið mat á óæskilegu hegðuninni eða sett af stað skráning í þeim tilgangi að greina þá umhverfisþætti sem hafa áhrif á hegðun barnsins hverju sinni. Í kjölfar greiningarvinnu þróar atferlisfræðingur í samvinnu við foreldra og starfsfólk áætlun. Innifalið í áætluninni er ávallt að kenna barninu æskilega hegðun sem getur komið í stað þeirrar óæskilegu. Atferlisfræðingur veitir síðan ráðgjöf og kennslu til þeirra sem umgangast barnið, samræmir vinnubrögð og fylgir áætluninni eftir til að ganga úr skugga um að hún beri árangur. Atferlisfræðingar sinna einnig ýmsum námskeiðum sem viðkoma hegðun og kennslu barna, og eru í rannsóknarsamstarfi við háskólana.
(KSB/0822)

Félagsráðgjafar

Félagsráðgjafar hitta foreldra í viðtölum og fá upplýsingar um aðstæður og líðan hjá fjölskyldu. Horft er á aðstæður fjölskyldunnar í heild sinni og gerðar áætlanir í samvinnu við foreldra sem miða að því að leita heppilegra stuðningsúrræða. Unnið er út frá styrkleikum fjölskyldunnar að því markmiði að bæta lífsgæði. Félagsráðgjafar veita fjölskyldunni stuðning, upplýsingar og leiðsögn um félagsleg úrræði hjá sveitarfélögum, ríki, einkaaðilum og félagasamtökum og aðstoða við að leita eftir þjónustu og stuðningi.

Samstarf félagsráðgjafa við fjölskylduna fer fram í viðtölum, heimsóknum, símtölum, teymisfundum, fundum með þjónustuaðilum, fjölskyldufundum og bréfaskriftum. Ennfremur eru félagsráðgjafar í samstarfi við aðila úr öðrum þjónustukerfum. Dæmi um stuðningsúrræði sem félagsráðgjafar leiðbeina fjölskyldu um eru umönnunargreiðslur, stuðningsfjölskyldur, liðveisla, forgangsbeiðni í leikskóla, stuðningsviðtöl, úrræði fyrir systkini og margt fleira.

Iðjuþjálfar 

Iðjuþjálfar meta færni barna og unglinga við iðju, það er frammistöðu og þátttöku í viðfangsefnum sem þau vilja og þurfa að leysa í daglegu lífi. Samspil barns, iðju og umhverfis er ávallt í brennidepli. Aflað er upplýsinga um færni í ólíkum aðstæðum og greint hvað í umhverfi og athöfnum ýtir undir eða torveldar þátttöku og virkni. Áhersla er lögð á styrkleika og áhugasvið viðkomandi barns í samhengi við daglegt líf fjölskyldunnar.

Þátttaka og færni við verk og athafnir á heimili, í skóla og samfélagi er könnuð með stöðluðum matstækjum þar sem leitað er eftir sjónarmiðum barns, foreldra, kennara og annars fagfólks eftir því sem við á. Iðjuþjálfar meta þroska- og færniþætti sem tengjast eigin umsjá, félagslegum samskiptum, hreyfingu, skynúrvinnslu, handbeitingu, verkgetu, áhugasviði og þátttöku barnsins í tómstundaiðju. Að auki er þörf fyrir aðlögun umhverfis og hjálpartæki metin, til dæmis notkun tölvu til tjáskipta og náms. Ráðgjöf og eftirfylgd iðjuþjálfa tekur mið af því hversu margþættar þarfir barns og fjölskyldu eru. Leiðbeint er um athafnir og leiki sem örva þroska eða lausnir varðandi breytingar og aðlögun á umhverfi og viðfangsefnum. Sem dæmi má nefna að auka sjálfstæði barnsins með því að bæta aðgengi og vinnulag við athafnir daglegs lífs. Iðjuþjálfar veita sérhæfða ráðgjöf um tækniúrræði og notkun hjálpar- og stoðtækja. Farið er í heimsóknir í skóla og á heimili þar sem færni barnsins og samspil við umhverfið er metið og bent á hugsanlegar leiðir til lausna. Iðjuþjálfar á Ráðgjafar- og greiningarstöð sinna einnig fræðslu, námskeiðahaldi og rannsóknastarfi.

Læknar 

Læknar gegna oft mikilvægu hlutverki við frumgreiningu vandans, áður en til tilvísunar á Ráðgjafar- og greiningarstöð kemur, innan sjúkrahúss eða utan. Hann metur hvaða orsakarannsóknir eru nauðsynlegar hjá hverju barni út frá þroskasögu og skoðun. Læknar meta þörf fyrir meðferð og þjálfun, í samvinnu við aðra sérfræðinga teymisins. Börn með marktæk þroskafrávik eru oft með útbreidda röskun á starfsemi miðtaugakerfisins. Þannig koma oft fram frávik í fín- og grófhreyfingum, málþroska og hegðun, auk þess sem rekja má til meginfötlunar. Með taugaskoðun og taugaþroskamati leggur læknirinn mat á röskun og færni barnsins og sér um að vísa barninu í viðeigandi þjálfun að lokinni greiningu, t.d. iðju-, sjúkra- og talþjálfun, allt eftir þörfum hvers barns á hverjum tíma. Taugaskoðunin getur einnig vakið grunsemdir um skerta sjón eða heyrn, en slík vandamál sjást í auknum mæli hjá þroskahömluðum börnum. Læknar taka þátt í að meta hegðun og atferli og þörf fyrir meðferð, t.d lyfjameðferð.

Læknar greina ýmsa líkamlega kvilla, meðhöndla þá eða vísar til annarra sérfræðinga eftir því sem við á. Bæði getur verið um að ræða sjúkdóma sem herja jafnt á öll börn, svo sem ýmsa barnasjúkdóma og umgangspestir, eða önnur líkamleg vandamál og meðfædda galla sem sjást í aukinni tíðni hjá börnum með meðfæddar fatlanir. 

Heilbrigðisgagnafræðingar

Heilbrigðisgagnafræðingar annast skráningu gagna er varða skjólstæðinga stofnunarinnar. Þeir starfa í nánu sambandi við sérfræðinga RGR. Þeir skrá og hafa yfirumsjón með öllum læknaskýrslum, bréfum varðandi niðurstöður og greiningar. Heilbrigðisgagnafræðingar ganga einnig frá bréfum og vottorðum sem gerð eru varðandi skjólstæðinga RGR og send til annarra sérfræðinga, stofnana eða hins opinbera. Yfirlestur, frágangur og útsending gagna falla einnig undir starfssvið heilbrigðisgagnafræðinga í samvinnu við starfsmenn stofnunarinnar. 

Sálfræðingar 

Sálfræðingar á Ráðgjafar- og greiningarstöð eru með sérfræðiþekkingu á röskunum í taugaþroska. Þeir gera athuganir á þroska og hegðun barna og veita ráðgjöf til foreldra og fagfólks. Sálfræðingar taka þátt í fræðslu, námskeiðahaldi og rannsóknum. Athugun sálfræðinga á þeim börnum, sem vísað er til athugunar á stöðina er fjölþætt  þar sem stuðst er við margvíslegar athugunaraðferðir, próftæki og byggt á sérfræðiþekkingu á börnum með ýmsar tegundir fatlana.
Ráðgjöf til foreldra og fagfólks er mikilvægur þáttur í starfi sálfræðinga á Ráðgjafar- og greiningarstöð. Í framhaldi af athugun er afar mikilvægt að niðurstöður greiningar leiði til aukins skilnings á erfiðleikum barnsins og íhlutunar/meðferðar, sem dregur úr áhrifum fötlunar á líf þess. Þáttur sálfræðinga í ráðgjöf og íhlutun getur falist í beinni ráðgjöf til foreldra og fagfólks vegna erfiðrar hegðunar hjá barni, uppeldisráðgjöf til foreldra og þátttöku í skipulagningu íhlutunar. Sálfræðingar RGR eru í tengslum við háskólasamfélagið. Á stöðinni koma reglulega sálfræðinemar í verkþjálfun og hafa sálfræðingar umsjón með starfsþjálfun þeirra. Dæmi er um að sálfræðingar á Ráðgjafar- og greiningarstöð kenni sálfræði á háskólastigi og séu leiðbeinendur í lokaverkefnum.

Sérkennarar

Sérkennari gerir athugun á þroska og hegðun barna auk þess að athuga félagsleg samskipti og leik. Snemmtæk íhlutun er veigamikill þáttur í starfi leikskólasérkennarans og fer sú íhlutun fram á heimili barnsins og á Ráðgjafar- og greiningarstöð  eða þar til barnið byrjar í leikskóla. Sérkennari veitir ráðgjöf og eftirfylgd til foreldra og starfsfólks leikskóla/grunnskóla, um sérkennslu, skipulagningu á kennsluumhverfi og fylgir greiningu eftir ef þurfa þykir. Ráðleggur starfsmönnum leikskóla/grunnskóla um gerð verkefna og einstaklingsáætlana fyrir hvert barn með hliðsjón af greiningu á fötlun þess í samvinnu við aðra er að málinu koma. Leiðbeinir starfsmönnum með reglulegum heimsóknum (vinnufundum) í leikskólann/grunnskóla.

Sjúkraþjálfarar 

Sjúkraþjálfarar Ráðgjafar- og greiningarstöðvar sérhæfa sig í að meta hreyfifærni og hreyfiþroska barna, greina frávik og meta þörf fyrir íhlutun. Auk klíniskra athugana eru notuð viðurkennd hreyfipróf. Þjálfararnir vinna í samráði við fjölskyldur barna og unglinga, fagfólk á Ráðgjafar- og greiningarstöð  og aðra þjónustuaðila. Starfið fer fram á stöðinni, á heimilum, í leikskólum, skólum eða þar sem barnið dvelur. Úrlausnir geta verið í formi þjálfunar eða ráðgjafar um skyn- og hreyfiörvun barnsins í samræmi við niðurstöður athugana. Einnig aðstoða sjúkraþjálfarar við aðlögun umhverfis og útvegun hjálpartækja. Markmið þjálfaranna eru að auka færni og þátttöku barnsins og bæta lífsgæði fjölskyldunnar.

Talmeinafræðingar 

Talmeinafræðingar gera ítarlega athugun á málþroska barnsins. Með formlegum málþroskaprófum eru prófaðir eftirtaldir þættir: Málskilningur, þar sem athugaður er orðskilningur og hvernig barnið skilur málleg fyrirmæli og ýmis hugtök. Máltjáning, þar sem meðal annars er athugaður orðaforði, setningamyndun, málfræði- og hljóðkerfisþættir. Ennfremur málnotkun, þar sem kannað er hvernig barnið notar mál og tal í samskiptum við aðra. Í mati talmeinafræðings á málþroska felst einnig athugun á talfærum, almennri tjáskiptafærni, óhefðbundnum tjáskiptaleiðum og fæðuinntökuvanda. Fyrir utan formleg málþroskapróf og matslista fer einnig fram athugun í frjálsum leik með barninu.

Þegar niðurstöður athugana liggja fyrir er gerð áætlun um áherslur í málörvun. Í samráði og samvinnu við foreldra og þjónustuaðila eru áhersluatriðum fléttað inn í leik og daglegar athafnir barnsins. Veitt er sérhæfð ráðgjöf/þjálfun varðandi t.d. óhefðbundnar tjáskiptaleiðir og fæðuinntökuvanda. Eftirfylgd er metin eftir þörf hverju sinni og umfangið fer eftir hversu sértæk hún þarf að vera.

Þroskaþjálfar 

Þroskaþjálfar beita fagþekkingu sinni í því skyni að bæta lífsskilyrði og lífsgæði skjólstæðinga sinna  með því að sinna snemmtækri íhlutun þar sem áhersla er lögð á að hafa áhrif á þroskaframvindu eins fljótt og auðið er, greiningu á fötlunum barna, ráðgjöf vegna þjálfunar og daglegrar aðlögunar ásamt því að taka þátt í fjölbreyttum fræðslu- og þjálfunarnámskeiðum sem í boði eru á vegum stofnunarinnar. 

Þroskaþjálfar taka þátt í þverfaglegri teymisvinnu með öðrum sérfræðingum stofnunarinnar þar sem mismunandi þekking og reynsla er sameinuð og nýtt til hagsbóta fyrir þá sem nota þjónustuna. Þroskaþjálfar hafa ýmist sérhæft sig í snemmtækri íhlutun, atferlisþjálfun, íhlutun fyrir einhverfa nemendur í grunn- og framhaldsskólum, greiningu á aðlögunarfærni, greiningu á einhverfu eða notkun á færnimiðuðum matskerfum. Þeir leggja sig fram um að vera í fremstu línu varðandi þekkingu á fötlunum, viðeigandi þjálfun og öðrum úrræðum sem þörf er á meðal annars með því að fylgjast með nýjungum á alþjóðavettvangi. Þannig veita þeir foreldrum og samstarfsaðilum utan stofnunarinnar faglega aðstoð og ráðgjöf.