PECS

PECS (The Picture Exchange Communication System) er myndrænt boðskiptakerfi sem aðallega hefur verið notað með börnum með einhverfurófsröskun, sem hafa takmarkaða eða enga boðskiptafærni og búa ekki yfir færni til að nota talmál til að tjá sig. Boðskiptakerfið hentar einstaklingum með röskun á einhverfurófi, frá leikskólaaldri og upp í fullorðinsaldur. Aðferðin er talin heppileg fyrir börn á öllum þroskaaldri, með slaka boðskiptafærni og málþroska. Ekki er krafist sérstakrar undirstöðufærni hjá barninu né talmáls við upphaf þjálfunar. Með PECS boðskiptaþjálfun er lögð höfuðáhersla á þjálfun frumkvæðis til boðskipta og málhegðun en ekki talmál. Aukin boðskiptafærni barna eftir PECS þjálfun hefur hinsvegar haft jákvæð áhrif á þróun talmáls.

Aðferðin var þróuð af Andy Bondy og Lory Frost og byggir á aðferðum hagnýtrar atferlisgreiningar (applied behavior analysis) og kenningum Skinners um málhegðun (verbal behavior). Megin aðferðafræðin byggir á jákvæðri styrkingu (positive reinforcement), stýringum (prompting), mótun (shaping), dvínun (fading), keðjun (chaining), verkgreiningu (task analysis) og afmörkuðum þjálfunaræfingum (discrete trials).

Myndir og/eða önnur tákn eru notuð til að þjálfa virk boðskipti. Barnið er þjálfað í að skipta á mynd og því sem það langar til að fá. Afmarkaðar þjálfunaræfingar PECS fela í sér að barni stendur til boða eða er sýndur hlutur (greinireiti), barnið tekur mynd af hlutnum og afhendir viðmælanda (svörun), barnið fær það sem það bað um með myndinni (styrkir). Stýringar eru notaðar ef þörf er á, til að fyrirbyggja að barnið geri mistök.

Þjálfuninni er skipt í 6 stig og eru skýr markmið og nákvæmar leiðbeiningar fyrir hvert þeirra. PECS þjálfun á sér stað samhliða heildstæðri þjálfun sem nær til allra þroskaþátta.

PECS er einföld, ódýr og jákvæð aðferð sem ekki er tímafrekt að útfæra og leggja inn. Til þess að PECS sé rétt útfært þá verður sá sem leggur það inn (þjálfar) að hafa fengið viðeigandi þjálfun því tækni við innlögn getur verið vandasöm. Rétt útfærsla og þjálfunartækni getur skipt sköpum varðandi framvindu og framfarir barnsins.

Sýnt hefur verið fram á jákvæð áhrif PECS boðskiptaþjálfunar á frumkvæði til boðskipta hjá börnum með einhverfurófsröskun. Ráðlagt er að gera nákvæmar skráningar til að fylgjast með framvindu hjá barninu svo hægt sé að staðfesta gagnsemi aðferðarinnar fyrir tiltekinn einstakling.

Hér má smella á erlent kynningarmyndband um PECS 

© Guðný Stefánsdóttir, þroskaþjálfi og ráðgjafi í atferlisþjálfun.

Heimildir:

Frost, L. Og Bondy, A. (1994). PECS: The picture exchange communication system: Training manual, (2. útgáfa). Cherry Hill: PECS Inc.

Sigrún Kristjánsdóttir. (2008). Áhrif myndræna boðskiptakerfisins PECS á boðskiptafærni og hegðun barna með einhverfu. Óbirt meistaraprófsverkefni: Háskóli Íslands.

Simpson, R. L., de Boer-Ott, S. R., Griswold, D. E., Myles, B. S., Byrd, S. E., Ganz, J. B., Cook, K. T., Otten, K. L., Ben-Arieh, J., Kline, S. A. og Adams, L. G. (2005). Autism spectrum disorders: Interventions and treatments for children and youth. Thousand Oaks: Corwin Press.

Uppfært  í ágúst 2020