Þjónustuteymi

Lagt er til að í tengslum hvert barn og fjölskyldu þess sé myndað þjónustuteymi. Í teyminu eru foreldrar og fulltrúar þeirra aðila sem koma að þjónustu við barnið og fjölskylduna. Þessir aðilar fylgja sameiginlegum markmiðum og miðla upplýsingum sín á milli. Þjónustuteymið ákveður hversu oft það hittist en ráðlegt er að það sé ekki sjaldnar en einu sinni til tvisvar á ári. Endurskoða þarf reglulega hverjir eru í þjónustuteyminu og hvert hlutverk þeirra er. Þegar barnið hefur náð unglingsaldri er mikilvægt að það sé virkur þátttakandi í teyminu.

Smellið hér til að ná í eyðublað sem hentar vel við skipulagningu á þjónustuteymi.

Notkun fjarfundabúnaðar

Sérfræðingar Ráðgjafar- og greiningarstöðvar nýta að mestu fjarfundaforrit á borð við Teams, Zoom eða Google Meet en einnig er möguleiki að nota IP fjarfundarbúnað í þágu þeirra sem búa utan höfuðborgarsvæðis. Þjónustufundir, ráðgjöf og fræðsla til þeirra sem búa á landsbyggðinni fer gjarnan fram með fjarfundum. 

Viðmið um þjónustu sveitarfélags við börn með alvarlegar þroskaraskanir

Þroskahömlun einkennist af skertum vitsmunaþroska og skertri aðlögunarfærni. Þroskahömlun er skilgreind sem fötlun og felur í sér alvarlega námserfiðleika. Börn með þroskahömlun þurfa því aðlagað námsefni, sérkennslu og stuðning til að taka þátt í almennu bekkjarstarfi. Erfiðleikar í samskiptum við jafnaldra eru algengir og því er oft þörf fyrir félagslegan stuðning í skólanum.Ýmsar fylgiaskanir eru einnig algengar hjá börnum með þroskahömlun sem oft þarf að meðhöndla sérstaklega.

Þjónustuteymi

Mikilvægt er að stofnað sé teymi þeirra sem koma að þjónustu við barnið og fjölskyldur þess. Í slíku teymi er gert ráð fyrir foreldrum, starfsfólki skóla til dæmis umsjónarkennara, sérkennara, þroskaþjálfa, stuðningsfulltrúa og skólastjórnanda eða fulltrúa hans auk ráðgjafa viðkomandi sveitarfélags. Aðrir sérfræðingar, svo sem iðjuþjálfar, sjúkraþjálfarar og talmeinafræðingar, eru kallaðir til eftir þörfum. Samstarf við foreldra og virk þátttaka þeirra í þjónustuteyminu er afar mikilvæg. Vel hefur reynst að þjónustuteymið haldi reglulega fundi, til dæmis á 1-2 mánaða fresti. Æskilegt er að starfsmaður skóla sinni hlutverki tengils. Í því felst að hafa umsjón með teymisvinnu og að áætlunum sé fylgt eftir.

Einstaklingsnámsskrá

Mikilvægt er að útbúa einstaklingsnámsskrá sem tekur mið af stöðu barns, styrkleikum og veikleikum á mismunandi sviðum. Gera þarf áætlun og skýr markmið fyrir hvert fag, einnig fyrir sérgreinar. Auk annarra markmiða í aðalnámsskrá þarf einstaklingsnámsskráin að fela í sér eftirfarandi færnisvið:

-  Félagsfærni og þátttaka í í leik og starfi
-  Færni við athafnir daglegs lífs (sjálfshjálp, klukka, peningar o.s.frv.)

Meta þarf færni barns reglulega og fylgjast með hvort markmiðum einstaklingsnámskrár er náð og endurskoða kennsluaðferðir ef tilskyldum árangri er ekki náð. Æskilegt er að mat á árangri og endurskoðun einstaklingsnámsskrár fyrir börn með þroskahömlun fari fram á 3-6 mánaða fresti.

Fræðsla

Ráðgjafar- og greiningarstöð býður reglulega upp á hagnýt námskeið fyrir aðstandendur og fagaðila sem sinna þjónustu við börn og ungmenni með þroskahömlun og aðrar þroskaraskanir.  Sjá úrval námskeiða hverju sinni hér. 

Beiðni um afrit úr eigin sjúkraskrá

Í sumum tilfellum kalla fyrrverandi skjólstæðingar, eða aðstandendur skjólstæðinga, stofnunarinnar eftir gögnum úr eigin sjúkraskrá. Í þeim tilfellum þarf að fylla út eyðublað sem má hlaða niður í word eða pdf sniði. Sjá hér að neðan:

Beiðni um afrit úr sjúkraskrá - 12. febrúar 2024 - RGR-EYD-002.DOCX

Beiðni um afrit úr sjúkraskrá - 12. febrúar 2024 - RGR-EYD-002.PDF