Yngri börn

Börn á leikskólaaldri og yngri og fjölskyldur þeirra fá þjónustu á Yngri barna sviði.

Á Yngri barna sviði er unnið út frá hugmyndafræði snemmtækrar íhlutunar og fjölskyldumiðaðrar þjónustu. Þegar barni hefur verið vísað á Ráðgjafar- og greiningarstöð og máli þess hefur verið vísað á fagsvið er ákveðið hvaða starfsmaður verður tengill fjölskyldunnar og hefur yfirsýn yfir þjónustuna. Tengiliður heldur utan um mál barnsins, er tengiliður við stofnunina, ræðir reglulega við foreldra og fær mynd af þörfum og styrkleikum barns og fjölskyldu. Í samstarfi við annað fagfólk tekur tengillinn þátt í að miðla upplýsingum og stuðla að viðeigandi úrræðum og samvinnu milli þjónustukerfa. Hlutverk hans er einnig að styðja foreldra og hvetja þá til virkrar þátttöku, meðal annars til að gera kröfur um og eiga hlutdeild í ákvörðunum er varða þjónustu við barn og fjölskyldu. Hlutverk tengils getur verið breytilegt eftir eðli mála og verklagi á fagsviðum.

Þjónusta við ung börn sem ekki eru komin í leikskóla felur í sér snemmtæka íhlutun. Markmiðið er að hafa jákvæð áhrif á þroskaframvindu og framtíðarhorfur barna og styrkja foreldra þeirra í uppeldishlutverki sínu. Íhlutunin felur meðal annars í sér markvissa þjálfun og kennslu barna, en einnig ráðgjöf og fræðslu til foreldra og fjölskyldu. Fylgst er með þroskaframvindu barna og formlegt mat lagt á þroskastöðu, oft við tveggja ára aldur eða í tengslum við upphaf leikskólagöngu. Samstarf er við fagaðila utan Ráðgjafar- og greiningarstöð svo sem á Barnaspítala Hringsins og Æfingastöð SLF. Leikskólaganga er undirbúin í samstarfi við foreldra, leikskóla og sérfræðiþjónustu sveitarfélaga. Fyrir þau börn sem búa á landsbyggðinni er veitt ráðgjöf til foreldra og fagaðila í heimabyggð, farið í heimsóknir og haldnir fjarfundir.

Þjónusta við börn á leikskólaaldri er mismunandi eftir ástæðu tilvísunar og þörfum barns og fjölskyldu. Sveitarfélög bera ábyrgð á snemmtækri íhlutun í leikskólum og því er unnið náið með teymi barnsins, það er foreldrum, ráðgjöfum sveitarfélaganna og starfsfólki leikskóla. Veitt er ráðgjöf og fræðsla, meðal annars vegna snemmtækrar atferlisíhlutunar og skipulagðrar kennslu. Einnig er veitt sérhæfð ráðgjöf til dæmis vegna alvarlegs fæðuinntökuvanda, hegðunarvanda og svefnvanda og fer vinnan bæði fram á heimilum og í leikskólum barnanna. Áhersla er lögð á að markviss íhlutun fari strax af stað og unnið sé með þann vanda sem fram kemur við frumgreiningu, til hagsbóta fyrir barn og fjölskyldu. Tímasetning athugana hjá hverju barni er háð ýmsum þáttum svo sem ástæðu tilvísunar, aldri barns og biðlista. 

Starfsfólk Yngri barna sviðs.

Ráðgjafar- og greiningarstöð 
Counselling and Diagnostic Centre
Dalshraun 1b, 2. hæð | 220 Hafnarfjörður
Sími/Tel.: 510 8400 | Kennitala: 570380-0449


Afgreiðsla og skiptiborð er opið frá kl. 8.30 - 12.00 og 12.30 - 15.00 mánudaga til fimmtudaga
og föstudaga fra 8.30 – 13.00.
Reception is open Mon. to Thurs. from 8.30 - 15.00 (closed 12.00 - 12.30) and Fri. from 8.30 - 13.00.

 

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur

Fáðu rafræn fréttabréf send á netfangið þitt

Svæði