Óhefðbundnar tjáskiptaleiðir

Óhefðbundnar tjáskiptaleiðir (AAC) eru þær leiðir sem notaðar eru til tjáskipta aðrar en talmálið. Það getur átt við um svipbrigði, bendingar, látbragð, tákn sem byggja á hreyfingum handanna s.s táknmál heyrnarlausra og Tákn með tali (TMT), hlutbundin tákn/hluti og myndræn tákn s.s Blisstáknmálið og ýmiskonar myndir og myndakerfi s.s PCS (Picture Communication Symbols) og Pictogram.

Á ensku er stundum  talað um hreyfitáknin sem unaided communication og hluti og myndræn tákn sem aided communication. Með aidet communication er átt við að til þess að gera hluti og myndræn tákn aðgengileg til tjáskipta þarf að nota einhverskonar tjáskiptahjálpartæki. Það getur átt við um svokallaða "pappatækni", s.s spjöld, og bækur og svo tæknileg tjáskiptahjálpartæki s.s tölvur og talvélar. Einnig getur þurft að styðjast við sérstakan bendibúnað s.s höfuðljós og sérútbúna rofa.

Óhefðbundin tjáskiptaleið getur komið í staðin fyrir talmálið eða sem uppbót með því talmáli sem fyrir er. Í sumum tilvikum er um varanlegt tjáskiptaform að ræða en stundum er aðeins um tímabundið ástand að ræða.

 

Ohefdbundnar_flaedirit

 

Orð og hugtök:

AAC=Augmentative and Alternative Communication. Óhefðbundnar tjáskiptaleiðir

ASK=Alternativ og supplerende kommunikasjon (norska) Óhefðbundnar tjáskiptaleiðir       

AKK=Alternativ och kompletterende kommunikation (sænska). Óhefðbundnar tjáskiptaleiðir                                            

SAK=Støttet og alternativ kommunikation (danska). Óhefðbundnar tjáskiptaleiðir

ISAAC=International Society for Augmentative and alternative communication. Alþjóðleg samtök um óhefðbundnar tjáskiptaleiðir                         

Um ISAAC

 ISAAC (International Society for Augmentative and Alternative Communication) eru alþjóðleg samtök sem hafa það að markmiði að auka þekkingu og útbreiðslu fólks á notkun óhefðbundinna tjáskiptaleiða. Markmið samtakanna er að auka lífsgæði þeirra sem eiga við tjáskiptaörðugleika að stríða. Samtökin vinna að því að auka við og styðja rannsóknir og þróun á sviði óhefðbundinna tjáskiptaleiða. ISAAC var stofnað 1983 og eru meðlimir samtakanna frá yfir 50 löndum. 14 lönd hafa sérstakar ISAAC deildir (Chapters) í sínu heimalandi, má þar nefna Ástralíu, Kanada, Danmörk, Noreg, Svíþjóð, Finnland, Bretland o.fl enskumælandi lönd, Frakkland o.fl frönskumælandi lönd, Þýskaland o.fl. þýskumælandi lönd, Bandaríkin, Ísrael, Ítalíu o.fl.

Á  Íslandi er ekki starfandi sérstök ISAAC deild en við getum verið meðlimir í öðrum löndum. Allir geta gerst aðilar í ISAAC. Sjá nánar á heimasíðu samtakanna, www.isaac-online.org/

ISSAC Biennial Conference: Annaðhvert ár er haldin alþjóðleg ráðstefna á vegun ISAAC. Um er að ræða glæsilegar og vel skipulagðar ráðstefnur af bestu gerð þar sem bæði notendur og fagaðilar skiptast á þekkingu og reynslu. Þarna eru kynntar allar helstu nýjungar á þessu sviði hvort sem um er að ræða  tæknileg tjáskiptahjálpartæki, kennsluaðferðir, tjáskiptaleiðir eða rannsóknir. Einn besti vettvangur til að kynna sér og fylgjst með nýjungum og þróun á sviði óhefðbundinna tjáskiptaleiða.  

Heimasíða ISAAC

Isaac deildarnar á hinum Norðurlöndunum halda uppi góðum heimasíðum sem vert er að skoða. Má þar nefna: www.isaac.no/ (Noregur),  www.isaac.dk/ (Danmörk) , www.papunet.net/isaac (Finnland)

Augmentative and alternative Communication (AAC) er alþjóðlegt tímarit sem ISAAC gefur út ársfjórðungslega. Þeir sem eru meðlimir í ISAAC fá blaðið sent að kostnaðarlausu. Sjá nánar: www.isaac-online.org/en/publications/aac.html

Yfirfarið í desember 2010 / Sigrún Grendal Magnúsdóttir