Laus sæti á Systkinasmiðju fyrir eldri börn

Það eru laus sæti á Systkinasmiðju fyrir eldri börn á aldrinum 12 - 14 ára sem haldin verður næstu helgi 4. - 5. febrúar frá kl. 12.00 - 15.00. Systkinasmiðjan er fyrir eldri börn sem eiga systkini með fötlun og/eða þroskafrávik. Á námskeiðinu eru ýmis verkefni leyst, börnin ræða stöðu sína innan fjölskyldunnar, skólans og meðal vina. Einnig er það rætt hvernig er leyst úr erfiðleikum sem verða á vegi barnanna, meðal annars vegna systkina og margt fleira. 

Þessa þætti nálgast leiðbeinendur Systkinasmiðjunnar með börnunum gegnum skemmtilega leiki þar sem hvert barn fær að njóta sín sem best og skemmtir sér vel. Námskeiðið er ekki meðferðarúrræði heldur fyrst og fremst til að hjálpa börnum að tjá sig um reynslu og upplifun sína af því að eiga systkini með sérþarfir. 

Markmið námskeiðsins er að bæta líðan barna með því að leyfa þeim að tjá sig um reynslu sína og upplifun af því að eiga systkini með sérþarfir, bæta samskipti barna við systkini sín, auka skilning þeirra á systkinum sínu og hitta önnur börn sem eru í svipuðum sporum.

Nánari upplýsingar og skráning hér.
Athugið að upp er komin biðlistaskráning en þau sem skrá sig á biðlista komast að og haft verður samband með tölvupósti