Vorráðstefna Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins

Greiningar- og ráðgjafarstöð hefur allt frá árinu 1986 haldið vor hvert fjölmennt námskeið um málefni barna með alvarleg þroskafrávik. Í hvert sinn hefur verið fjallað um afmarkað efni á þessu sviði. Þannig hefur verið fjallað um eðli, orsakir og meðferð mismunandi fatlana, um þjónustu við fötluð börn og fjölskyldur þeirra og um samvinnu og siðferði í starfi með fötluðum.

Námskeiðin hafa sótt hinar ýmsu fagstéttir sem koma að þjónustu við fötluð börn innan mennta-, félags- og heilbrigðiskerfis. Má þar nefna félagsráðgjafa, hjúkrunarfræðinga, iðjuþjálfa, leik- og grunnskólakennara, lækna, sálfræðinga, sjúkraþjálfara, talmeinafræðinga og þroskaþjálfa. Auk þess hafa foreldrar fatlaðra barna og aðstandendur sótt námskeiðin í vaxandi mæli.

Á námskeiðum þessum sem hvert stendur í tvo daga hefur verið reynt að kynna helstu nýjungar á þessu sviði, en auk þess hafa námskeiðin verið vettvangur samveru og samráðs þeirra sem þau sækja. Fyrirlesarar hafa ávallt verið íslenskir og leitað hefur verið í smiðju þeirra sem hafa staðið framarlega í þekkingu, reynslu og rannsóknum á sviði fatlana innan og utan Greiningarstöðvar.

Frá því að Greiningarstöðin hóf þetta námskeiðahald hefur aðgengi að ýmis konar fræðslu aukist gífurlega. Því hefur dregið nokkuð úr sérhæfðu fræðsluhlutverki vornámskeiðanna og áhersla aukist á að kynna nýja þekkingu og stefnur og strauma á sviði fatlana barna. Því hefur verið ákveðið að endurskoða fyrirkomulagið á þann veg að halda vorráðstefnu nú í maí með breyttum áherslum frá því sem verið hefur. Fyrir hádegi báða dagana verða fyrirlestrar um ýmsa þætti er snerta starf með fötluðum og um viðhorf samfélagsins. Þannig verður fjallað um áhrif samdráttar á þessa þjónustu og um aðlögun samfélagsins að þörfum fatlaðra barna, um skólagöngu þeirra og bætta þjónustu samfélagsins. Eftir hádegi kynna forsvarsmenn tuttugu rannsóknar- og þróunarverkefna niðurstöður þeirra. Í lok beggja daganna verða hugleiðingar um hamingju og lífsgæði, en ráðstefnunni lýkur síðan með léttum veitingum í samverustund námskeiðsgesta og fyrirlesara.

Greiningarstöðin er landsstofnun sem starfar í þágu barna með alvarleg þroskafrávik í samvinnu við foreldra og fagfólk í nærumhverfi barnanna. Á hverju ári er yfir þrjú hundrað börnum vísað til þjónustu stofnunarinnar til greiningar, ráðgjafar og eftirfylgdar. Á stofnuninni starfa yfir 50 sérfræðingar á sviði fatlana barna. Auk þjónustu við fötluð börn og fjölskyldur þeirra er vaxandi áhersla lögð á rannsóknir og fræðslu. Frekari upplýsingar um ráðstefnuna er að finna á heimasíðu Greiningarstöðvar www.greining.is og er þar hægt að skrá sig til þátttöku. Einnig má skrá þátttöku í síma 510 8400. Þátttökugjald hefur verið lækkað verulega frá undanförnum árum, fagfólk greiðir kr. 12.000, en foreldrar og fatlaðir kr. 6000.

Það er von Greiningarstöðvar að sjá sem flesta þátttakendur og að ráðstefnan verði þannig áfram vettvangur fræðslu, samráðs og samvinnu fagfólks og aðstandenda barnanna.

Stefán J. Hreiðarsson, forstöðumaður, barnalæknir og sérfræðingur í fötlunum barna.