Upplýsingar um biðtíma eftir þjónustu

Hlutverk Greiningarstöðvar er að veita ráðgjöf vegna barna sem glíma við alvarleg þroska- og hegðunarfrávik. Börnum með vægari frávik þarf að vísa í þjónustu innan sveitarfélaga og heilbrigðiskerfis. Að skilja þarna á milli er ekki alltaf auðvelt en er sameiginlegt hlutverk sérfræðiþjónustu sveitarfélaga og heilbrigðiskerfis og Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins.

Þegar sterkur grunur er um alvarleg þroskafrávik, sem geta leitt til fötlunar fer fram frumgreining. Ef frumgreining staðfestir vandann er barni vísað á Greiningarstöð. Þjónusta Greiningarstöðvar hefst í kjölfarið og  er fyrsta skrefið að senda bréf með staðfestingu tilvísunar og frumgreiningar til foreldra, tilvísanda og þjónustuaðila í sveitarfélagi fjölskyldunnar. Í bréfinu eru oftast einnig settar fram ráðleggingar um sérkennslu,  þjálfun, teymisvinnu, aðkomu annarra sérfræðinga o.fl. Tilvísunaraðili og sérfræðiþjónusta sveitarfélags bera ábyrgð á því að barnið fái viðeigandi þjónustu í kjölfar frumgreiningar.

Ráðgjafar Greiningarstöðvar vinna með þjónustuteymum í leikskólum og grunnskólum og er mótuð áætlun fyrir hvert barn. Áætlunin tekur til  sérkennslu, þjálfunar og ýmissa stuðningsúrræða auk þessa sem frekari athuganir eru tímasettar. Innkoma ráðgjafa Greiningarstöðvar í þjónustuteymi barns tekur mið af vanda barns og þörf fyrir sérhæfða íhlutun.

Almennt má segja að biðtími eftir sérhæfðum athugunum sé stystur hjá yngstu börnunum og getur verið frá 1 ? 8 mánuðum. Biðtíminn ræðst af aldri barns, alvarleika fötlunar, hvaða sérhæfðu viðbótarathuganir þarf að gera og á hvaða tíma er best að gera slíkar athuganir með tilliti til aldurs og þroska barns. Biðtími eldri leikskólabarna er yfirleitt lengri og getur verið frá 8-16 mánuðum. Biðtími grunnskólabarna er að öllu jöfnu meiri en eitt ár.

Hafa þarf í huga að fyrsta íhlutun, sérkennsla, þjálfun og stuðningur, eru á ábyrgð leikskóla-, grunnskóla- og heilbrigðisþjónustu. Ráðgjafar Greiningarstöðvar eru fúsir til samstarfs eftir að tilvísun hefur verið samþykkt, en tímarammi er mismunandi og ræðst af fjölda tilvísana, aldri barna og því hversu sérhæfð ráðgjöfin þarf að vera.