Starfsreglur um frumgreiningu vegna tilvísunar á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

Hlutverk Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins er að sinna greiningu og ráðgjöf vegna barna með alvarlegar þroskaraskanir sem geta leitt til fötlunar og leiðbeina um meðferðar- og íhlutunarleiðir til þess að draga megi sem mest úr afleiðingum fötlunar.

Samkvæmt lögum um Greiningarstöð skal frumgreining hafa farið fram áður en vísað er á Greiningarstöð. Það felur í sér að fyrstu athuganir og þroskamælingar þurfa að fara fram í nærumhverfi barnsins á vegum sérfræðiþjónustu leikskóla eða skóla, sérfræðiþjónustu heilsugæslu eða sjálfstætt starfandi sérfræðinga. Þegar frumgreining bendir til alvarlegra raskana á þroska er það á ábyrgð þess sérfræðings sem framkvæmt hefur athuganir að vísa barninu formlega til Greiningarstöðvar. Það er jafnframt á ábyrgð frumgreiningaraðila að stuðla að því að þjónusta við barnið hefjist sem fyrst, þannig að tíminn sé sem best nýttur til íhlutunar.
Lög um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins

Við frumgreiningu þarf að skrá helstu þætti í heilsufars- og þroskasögu barnsins og upplýsa um fjölskylduaðstæður. Afla þarf upplýsinga um félagsleg samskipti barnsins og þegar um barn eða ungling á grunnskólaaldri er að ræða þarf að lýsa námslegri stöðu. Leggja þarf mat á vitsmunaþroska með viðurkenndu greindarprófi. Einnig þarf að fá upplýsingar um hegðun og líðan hjá foreldrum, kennurum og öðrum umönnunaraðilum barns, m.a. með spurningalistum. Ef barn hefur verið í sérhæfðri athugun og íhlutun utan heimilis og leikskóla/skóla þurfa upplýsingar um niðurstöður slíkrar meðferðar að fylgja með tilvísun. Einnig þarf að greina frá fyrri athugunum, þroskamælingum og orsakarannsóknum ef við á.


Starfsreglur um frumgreiningu vegna þroskahömlunar
Starfsreglur um frumgreiningu vegna einhverfurófsraskana
Starfsreglur um frumgreiningu hreyfihamlana og sjónskerðingar


Helstu erfiðleikar við frumgreiningu og óvissa varðandi tilvísun.
Þegar staðið er að athugun og greiningu þroskaraskana geta komið upp þær aðstæður að óvissa ríkir um niðurstöður athugunar og einnig hvort vísa eigi barni á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Algengustu vandamál varða ungan aldur barna, ofvirknihegðun og/eða skort á samvinnu við prófanir, mismunandi hegðun heima og í leikskóla/skóla, menningarmun, tví- eða margtyngi, vanrækslu eða annað ofbeldi. Í sumum tilvikum getur þurft að endurmeta stöðuna eftir íhlutun og ákveða þá hvort tilefni sé til tilvísunar á Greiningarstöð. Ef óvissa ríkir varðandi það hvort tilefni sé til tilvísunar er einnig möguleiki á að leita ráða hjá sviðsstjóra á inntöku- og samræmingarsviði Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins.