SKREF FYRIR SKREF - Opnun heimasíðu með kennsluefni fyrir foreldra barna með einhverfu

Fimmtudaginn 26. september s.l. var íslensk þýðing og staðfærsla á heimasíðu með kennsluefni fyrir foreldra barna með einhverfu opnuð í Gerðubergi.

Einhverfa er ekki lengur sjaldgæft fyrirbæri. Algengi einhverfu hefur vaxið hröðum skrefum  undanfarinn áratug og nýjustu fréttir af þeim vettvangi hjá íslenskum börnum er 1,2% sem svarar til þess að um það bil 55 börn bætast við árlega.

Mikilvægt er að íhlutun hefjist sem fyrst eftir að grunur um einhverfu hjá barni vaknar. Þar sem ekki er alltaf hægt að mæta umsvifalaust þörf fyrir þjónustu getur liðið dýrmætur tími þar til foreldrar fá ráðgjöf um hvernig best sé að vinna með barninu þeirra. Á internetinu stendur foreldrum til boða fjöldi meðferðarleiða sem margar lofa góðum árangri. Niðurstöður rannsókna hafa ítrekað bent til þess að mikilvægt sé að styðjast við gangreyndar aðferðir í íhlutun barna með einhverfu. Atferlisgreining (Hagnýt atferlisgreining, ABA) er grunnurinn að árangursríkustu íhlutunarleiðunum fyrir börn með einhverfu.

Til að koma til móts við þörf foreldra á góðri fræðslu um snemmtæka atferlisíhlutun, fékkst styrkur úr Leonardo menntaáætlun Evrópusambandsins, til þess að þróa frekar, þýða og staðfæra kennsluefni fyrir foreldra. Kennsluefnið var upphaflega þróað á Norður-Írlandi og nefnist Skref fyrir skref, eða Simple Steps á frummálinu (www.simplestepsautism.com).

Styrkveitingin gerði það mögulegt að koma efninu yfir á sænsku, ítölsku, hollensku og íslensku, svo og að staðfæra og þróa nýtt efni í samstarfi við sérfræðinga á Norður-Írlandi og Bretlandi. Leonardo hafði áður veitt styrk við að þýða efnið á norsku, þýsku og spænsku. Það verður einnig innan skamms fáanlegt á portúgölsku.

Kennsluefnið samanstendur af myndskeiðum, lesefni, viðtölum, sýnikennslu og útskýringamyndum, þar sem farið er yfir þann grunn í hagnýtri atferlisgreiningu sem nauðsynlegt er að hafa í upphafi íhlutunar.

Markmið efnisins er að veita foreldrum, kennurum og stuðningsaðilum barna með einhverfu haldgóðar upplýsingar um gagnreyndar aðferðir til þess að virkja námsgetu barna með einhverfu til fulls. Efnið þykir einstaklega foreldravænt, en það var upphaflega þróað í samstarfi við foreldra barna með einhverfu. Efnið nýtist einnig í íhlutun með börnum sem eru með önnur frávik í þroska. Með því að gera foreldrum kleift að styðja sem best við þroska barna sinna, auðveldar það börnunum að nýta sér  það sem þau læra í leik- og grunnskólanum. Auk þess gerir sú þekking sem foreldrar öðlast þeim kleift að nýta sér betur þá ráðgjöf sem alltaf þarf að vera til staðar frá ráðgjöfum sem hlotið hafa alþjóðlega viðurkennda þjálfun.

Frekari upplýsingar má nálgast á heimasíðunni www.simplestepsautism.com og hjá Sigríði Lóu Jónsdóttur, sálfræðingi á Greiningar- og ráðgjafarstöðinni, sem er verkefnisstjóri Skref fyrir skref hér á landi (sigridurloa@greining.is).

Myndir má skoða hér Skref fyrir skref