Skólamál: Úttekt um menntun án aðgreiningar á Íslandi

Skólamál
Skólamál

Út er komin skýrsla með niðurstöðum úttektar Evrópumiðstöðvar um menntun án aðgreiningar hér á landi. Úttektin nær til leik-, grunn- og framhaldsskólastiga og skoðað er hvernig til hefur tekist með innleiðingu hugmyndafræðinnar um menntun án aðgreiningar. Jafn heildstæð úttekt sameiginlega fyrir þessi þrjú skólastig hefur ekki verið gerð áður.

Úttektin náði til allra hagsmunaaðila skólasamfélagsins, það er til nemenda og fjölskyldna þeirra, starfsfólks skóla, skólaþjónustu og stoðþjónustu hvers konar, rekstraraðila skóla, samtaka kennara, kennaramenntunarstofnana og ráðuneyta. Markmiðið var að styðja við ákvarðanatöku um innleiðingu og framkvæmd stefnunnar um menntun án aðgreiningar með sannreyndri þekkingu og stuðla jafnframt að víðtæku sjálfsmati innan menntakerfisins auk þess að styðja við langtímaþróun menntastefnu á Íslandi.

Næstu skref sem mennta- og menningarmálaráðuneyti leggur til eru vinna við aðgerðaáætlun ogmálþing í júní næstkomandi með hlutaðeigandi aðilum til samtals og samráðs um hvernig best verði unnið með tillögur. Undirrituð var samstarfsyfirlýsing þar sem  mennta- og menningarmálaráðuneyti, velferðarráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga, Kennarasamband Íslands, Skólameistarafélag Íslands og Heimili og skóli lýstu yfir vilja til samstarfs við að fylgja eftir niðurstöðum úttektar á framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi. Með henni lýsa  þessir aðilar yfir vilja til samstarfs við að fylgja eftir því markmiði úttektarinnar að styðja við langtímaþróun menntastefnu á Íslandi.

Nánar um þessi mál hér

Fréttin er tekin af vef Sambands íslenskra sveitarfélaga