Notkun fjarfundabúnaðar

Notkun fjarfundabúnaðar í þjónustu Greiningar? og ráðgjafarstöðvar vegna barna utan höfuðborgarsvæðisins.

Ágæti viðtakandi.

Greiningarstöð festi nú í vor kaup á fullkomnum fjarfundabúnaði, og er það ætlun okkar að hann nýtist í daglegu starfi stofnunarinnar. Með notkun búnaðarins gefst svigrúm til að veita þeim sem búa utan höfuðborgarsvæðis betri þjónustu, og er stefnt að því að frá n.k. hausti verði þjónustufundir Greiningarstöðvar með samstarfsaðilum utan höfuðborgarsvæðis alla jafna haldnir með búnaðinum.

Þá veitir búnaðurinn tækifæri til að veita ráðgjöf vegna þjálfunar sameiginlegra skjólstæðinga. Einnig er fyrirhugað að nýta búnaðinn til fjarkennslu í tengslum við námskeið Greiningarstöðvar.

Ferðum fagfólks ætti þannig að fækka, bæði til og frá Greiningarstöð, tími fagfólks nýtist betur og ferðakostnaði er haldið í lágmarki.

Eftir því sem komist er næst er aðgengi að IP-fjarfundabúnaði í flestum sveitarfélögum landsins. Ólíkt ISDN-búnaði er kostnaður vegna samskiptanna lítill eða enginn, eða sá sami og við Internet-samskipti í tölvum. Ef um er að ræða gjaldtöku þess sem á búnaðinn í viðkomandi sveitarfélagi verður Greiningarstöð að gera ráð fyrir að heimamenn beri þann kostnað.

Við vonum að þessari nýbreytni verði tekið vel og okkur takist sameiginlega að nýta þessa tækni til hagsbóta fyrir skjólstæðinga okkar.

Með bestu kveðju og ósk um áframhaldandi gott samstarf
Stefán Hreiðarsson, forstöðumaður


Við notkun fjarfundabúnaðar er beðið um að eftirfarandi atriði séu höfð í huga:

Til að ná sem bestum samskiptum er mælt með því að fjarfundahugbúnaður sé uppfærður reglulega.

Óskað er eftir því að fjarfundabúnaðurinn leyfi dulkóðun (encryption enabled) til að tryggja aukið öryggi.

Fjarfundabúnaðurinn tengist IP fjarfundabúnuðum, en ISDN tenging er ekki möguleg. Þetta er mikil breyting frá því sem áður var þar sem fjarfundir með ISDN tengingum voru nokkuð kostnaðarsamir og gæðin mun minni.

Upplýsingar um IP númerið sem er notað til að tengjast Greiningarstöðinni fæst í síma 5108400

Til hagræðingar er mælt með að hringt sé í fjarfundabúnað Greiningarstöðvar í upphafi fundar.

Sé þess óskað er velkomið að Greiningarstöð hringi til að hefja fjarfundinn, en þá er æskilegt að viðkomandi IP númer sé gefið upp þegar fundurinn er boðaður.

Kostnaður við IP fjarfund er sá sami og við venjulega notkun internets í tölvu óháð því hvor hringir.

Hvor aðili um sig ber kostnað af aðstöðu sem til þarf.