Greiningar- og ráðgjafarstöð fagnaði 25 ára afmæli

Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins fagnaði 25 ára afmæli sínu föstudaginn 4.nóvember, en stofnunin tók til starfa 1. janúar 1986 sem þekkingar- og þjónustumiðstöð fyrir fötluð börn, fjölskyldur þeirra og fagfólk sem starfar í þeirra þágu. Afmælisveislan var mjög fjölmenn og var haldin í húsnæði stofnunarinnar að Digranesvegi í Kópavogi. Ýmsir listamenn komu fram, s.s. uppistand frá félögum úr hjólastólasveitinni, Leifur Leifsson, handhafi Kærleikskúlunnar 2011 og Elva Dögg Gunnarsdóttir, Eva Hauksdóttir fiðluleikari frá Suzukiskólanum lék á fiðlu og tónlistarmaðurinn KK skemmti gestum. Sögusýningu var dreift um húsið sem sýndi gömul prófgögn, þjálfunargögn og myndir af starfseminni. Stofnuninni voru færðar ýmsar gjafir, m.a. tjáskiptatölva frá Öryggimiðstöðinni og listaverk.

Hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins starfa á sjötta tug fagmanna á sviði fatlana og hefur Stefán J. Hreiðarsson, sérfræðingur í fötlunum barna verið forstöðumaður frá upphafi. Stofnunin þjónar öllu landinu og koma málefni yfir 500 barna til skoðunar þar á ári hverju. Stofnunin hóf starfsemi sína í Kjarvalshúsi á Seltjarnarnesi en flutti síðan að Digranesvegi 5 í Kópavogiárið 1988.

Á myndunum má sjá Stefán J. Hreiðarsson taka á móti gjöf frá Gerði A. Árnadóttur formanni Þroskahjálpar, veisluborðið, Sigrúnu Grendal Magnúsdóttur að taka á móti gjöf frá Ragnari Þór Jónssyni Öryggismiðstöðinni og tónlistarmanninn KK.

Afmaelid_1

Afmaelid_2

Afmaelid_3

Afmaelid_4