Einhverfa - ný þekking og nýir straumar

Sálfræðingarnir sem stóðu að málstofunni
Sálfræðingarnir sem stóðu að málstofunni

Á nýafstöðnu Sálfræðiþingi 16. - 18. mars sl. stóðu sálfræðingarnir  Ásdís Bergþórsdóttir, Unnur Jakobsdóttir Smári, Emilía Guðmundsdóttir og Sigríður Lóa Jónsdóttir fyrir málstofu undir yfirskriftinni Einhverfa - ný þekking og nýir straumar. Málstofustjóri var Dr. Evald Sæmundssen (sjá mynd, frá vinstri til hægri) en þau Emilía, Sigríður Lóa og Evald starfa á rannsóknarsviði Ráðgjafar- og greiningarstöðvar.

Í málstofunni var meðal annars rætt að hátt hlutfall einhverfra barna greinist ekki fyrr en á grunnskólaaldri jafnvel þó að einkenni séu komin fram snemma. Þessi börn missa af snemmtækri íhlutun sem getur stuðlað að bættum framtíðarhorfum. Greint var frá niðurstöðum rannsóknar sem fór fram í heilsugæslunni, með því markmiði að finna fleiri einhverf börn fyrr en ella og frá þróunarverkefni sem hefur verið innleitt í allar heilsugæslustöðvar á landinu í kjölfarið. 

Einnig kom fram að tíðni einhverfu eykst sífellt og eru mögulegar skýringar margvíslegar. Til dæmis er óljóst hvaða áhrif ný greiningarviðmið ICD-11 muni hafa á fjölgun greininga. Þeim er ætlað að endurspegla nútímaþekkingu á einhverfu þar sem horfið er frá óáreiðanlegri flokkun mismunandi raskana á einhverfurófi og meira tillit tekið til mikils breytileika á birtingarmynd, bæði milli einstaklinga og aldursskeiða. Þessi breytileiki gerir greiningu vandasama og þarfir fyrir þjónustu og íhlutun fjölbreyttar.

Algengi einhverfu meðal sjúklinga í geðheilbrigðiskerfinu er mun hærra en í almennu þýði. Því má gera ráð fyrir að flestir geðheilbrigðisstarfsmenn sinni þjónustu við fólk á einhverfurófi. Hins vegar benda rannsóknir til þess að jafnvel sérmenntað fagfólk hafi ekki þekkingu á einkennamynd og fylgiröskunum einhverfu og mögulegum áhrifum þeirra á meðferð. Mikilvægt er að bæta úr því.

Að lokum var rætt um „Neurodiversity“ sem þýtt hefur verið „skynsegin“ en skynsegin hreyfingin á rætur að rekja til loka síðustu aldar og vex ásmegin hér á landi. Hreyfingin telur að taugafræðilegur breytileiki sé náttúrulegur og frekar eigi að koma til móts við skynsegin fólk en að reyna að gera það neurotypískt.  Mikilvægt er að sálfræðingar skoði hvaða áhrif breyttar kröfur einhverfs fólks hafa á störf þeirra og geri sér grein fyrir áherslubreytingum í rannsóknum.