Barnamenningarverðlaun Velferðarsjóðs barna

Þann 1. desember hlaut Stefán J. Hreiðarsson forstöðumaður Barnamenningarverðlaun Velferðarsjóðs barna. Verðlaunin eru afhent árlega fyrir framúrskarandi störf í þágu velferðar barna. Barnamenningarverðlaununum fylgir fjármagn sem ætlað er til að hlúa að verkefni í starfsemi Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins.

Stefán tók við verðlaununum frá Kára Stefánssyni forstjóra og fulltrúa Íslenskrar erfðagreiningar við hátíðlega athöfn í Iðnó. Kári þakkaði Stefáni fyrir framlag sitt til íslenskra barna í gegnum árin og fór ljúfum orðum um störf hans og starfsemi stofnunarinnar.

Verðlaunahafar voru tveir að þessu sinni og hlaut Hrefna Haraldsdóttir foreldraráðgjafi Sjónarhóls sambærileg verðlaun. Aðrir sem hlutu styrki að þessu sinni voru Mæðrastyrksnefnd, Hjálparstofnun kirkjunnar og Dyngjan, áfangaheimili fyrir konur og börn.

Velferðarsjóður barna var stofnaður af Íslenskri erfðagreiningu og Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu árið 2000. Markmiðið með stofnun sjóðsins var að hlúa að velferð og hagsmunamálum barna á Íslandi, m.a. með fjárframlögum til heilbrigðis-, velferðar- og menntamála og samtaka og félaga á Íslandi sem hafa velferð og lækningar barna að megintilgangi. Í stjórn Velferðarsjóðs barna sitja Kári Stefánsson, forstjóri og fulltrúi Íslenskrar erfðagreiningar, Ingibjörg Pálmadóttir og Sólveig Guðmundsdóttir lögfræðingur, fulltrúi heilbrigðisráðherra. Framkvæmdastjóri sjóðsins er Elín Þorgeirsdóttir. Fagráð sjóðsins, sem m.a. kemur með tillögur til sjóðsstjórnar um úthlutun styrkja, skipa Valgerður Ólafsdóttir, Þórólfur Þórlindsson, Guðrún Helgadóttir, Elín Þorgeirsdóttir, Þórkatla Aðalsteinsdóttir, Grétar H. Gunnarsson og Rósa Guðbjartsdóttir.

Hér má finna frétt um verðlaunafhendinguna á heimasíðu Morgunblaðsins.


Velferdarsjodur-barna-008

Kári Stefánsson afhendir Stefáni J. Hreiðarssyni og Hrefnu Haraldsdóttur


Velferdarsjodur-barna-022

Valgerður Ólafsdóttir ásamt verðlaunahöfum.