Auglýst eftir kynningum á vorráðstefnu Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins

Árleg vorráðstefna Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins verður haldin 15. og 16. maí 2014. Yfirskrift ráðstefnunnar að þessu sinni er „Fjölskyldumiðuð þjónusta. Ávinningur og áskoranir“.

Eins og áður verður þar skapaður vettvangur fyrir fagfólk til að kynna ný íslensk rannsóknar- og þróunarverkefni, ásamt nýjungum í starfi á sviði fatlana barna.

Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins býður aðstandendum slíkra verkefna að kynna þau í fyrirlestrum eða á veggspjöldum. Einnig eru ábendingar um áhugaverð verkefni vel þegnar.

Óskað er eftir eftirfarandi upplýsingum:

  1. Titill verkefnis
  2. Nafn/nöfn höfunda
  3. Nafn þess sem flytur kynninguna, starfsheiti, vinnustaður og netfang
  4. Stutt lýsing á verkefni, markmiði, leiðum og helstu niðurstöðum.

Hámarks lengd á innsendu efni miðast við 2.000 slög (með bilum) með letrinu Arial 10p í word skjali.Verði kynning samþykkt verður hún prentuð í ráðstefnugögn eins og hún er send inn.

Kynningar verða með tvennum hætti:

Munnlegar kynningar í málstofu: Lengd hverrar kynningar verður 15 mínútur. Glærur kynninganna verða settar á heimasíðu Greiningarstöðvar að ráðstefnu lokinni.

Veggspjöld: Stærð veggspjalda skal vera: hæð 120 cm og breidd 90 cm (mega vera minni).

Tillögur skulu sendar í viðhengi á netfangið: gudny@greining.is, fyrir 14. mars 2014 merkt: Kynning 2014.

Rannsóknarnefnd stofnunarinnar velur úr innsendu efni og verða hlutaðeigandi látnir vita að því loknu.