Nýr bæklingur um fæði og heilsu hreyfihamlaðs fólks

Sjálfsbjörg, landssamband hreyfihamlaðs fólks hefur gefið út bæklinginn Fæði, þyngd og heilsa hreyfihamlaðs fólks en sambandið fékk leyfi sænsku samtakanna Spinalis Foundation (Samtök mænuskaddaðra) til að þýða bæklinginn. 

Í stað þess að einskorða innihald bæklingsins við mænuskaddaða þá er honum beint til fleiri hópa hreyfihamlaða. Fólk með heila- og mænusigg, heilalömun og aðrar fatlanir getur einnig notið góðs af ábendingum og ráðum sem þar má finna. Tilgangurinn með útgáfu bæklingsins er að fræða fólk um hættuna á að þyngjast of mikið þannig að offita verði síður vandamál, hvernig koma  má í veg fyrir þyngdaraukningu og almennt um mikilvægi mataræðis fyrir góða heilsu og vellíðan.

Undirstaða góðrar heilsu og vellíðunar er hollur matur. Staðreyndin er sú að óheilsusamlegar matarvenjur eru efst á lista yfir áhættuþætti sem valda algengustu lífsstílssjúkdómunum í heiminum: hjarta- og æðasjúkdómum, sykursýki tvö og nokkrum tegundum krabbameins.

Bæklingurinn leitast við að svara hvers konar mataræði er heppilegast að tileinka sér og hvernig sé best að reyna að léttast og koma í veg fyrir að aukakíló hrannist upp.