Höfðingleg gjöf frá Hringskonum

Vegleg gjöf frá HringskonumNýverið fékk Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins veglega gjöf frá Barnaspítalasjóði Hringsins. Í niðurskurði síðustu ára hafa leikfanga- og tækjakaup verið langt frá því að fylgja þörfum og brýnt að endurnýja þjálfunartæki og útvega ný sérhæfð þroska- og rofaleikföng fyrir skjólstæðinga stofnunarinnar.

Hringurinn er kvenfélag, stofnað árið 1904. Félagið hefur að markmiði að vinna að líknar- og mannúðarmálum, sérstaklega í þágu barna. Gjöf Hringskvenna til Greiningar- og ráðgjafarstöðvar inniheldur annars vegar ungbarnastól og ýmsan þjálfunarbúnað svo sem stóran bolta, pullur, keilur, rör og göngubelti. Hins vegar er um að ræða ýmiskonar þroskaleikföng fyrir ung börn á aldrinum 0-2 ára, rofaleikföng og spjaldtölvu. Andvirði gjafarinnar er um 600 þúsund krónur. Leikföngin og þjálfunarbúnaðurinn mun gleðja fjölda barna sem sækja þjónustu til Greiningarstöðvarinnar og nýtast á fjölbreytilegan hátt við þjálfun þeirra.

Átta stjórnarkonur Hringsins heimsóttu Greiningar- og ráðgjafarstöðina í gær, afhentu gjöfina og fengu um leið kynningu á starfsemi stöðvarinnar.