Framtíðin er núna!

Vorráðsstefna Greiningar- og ráðgjafarstöðvar verður haldin fimmtudaginn 9. maí og föstudaginn 10. maí á Hilton Reykjavík Nordica. Yfirskrift ráðstefnunnar að þessu sinni er Framtíðin er núna, snemmtæk íhlutun barna með þroskafrávik. Um 400 manns hafa skráð sig á vorráðstefnuna og er skráningu nú lokið. 

Á ráðstefnunni kennir margra grasa og eru erindin jafn fjölbreytt og fyrirlesararnir sem koma úr röðum fagfólks, foreldra og úr stjórnsýslunni. Til dæmis fjallar Ingólfur Einarsson barnalæknir um það hvernig hægt sé að hafa áhrif á færni og þroska barna, Salvör Nordal umboðsmaður barna fjallar um aukið hlutverk embættisins, Þorsteinn Hjartarson sviðsstjóri fjölskyldusviðs Árborgar fjallar um verklag skólaþjónustu í anda snemmtækrar íhlutunar auk þess sem foreldrar barna með þroskaraskanir deila sinni sýn á málefnið.

Sérstök áhersla verður lögð á sérstöðu barna sem eru tvítyngd eða hafa íslensku sem annað tungumál en sá notendahópur innan Greiningar- og ráðgjafarstöðvar hefur stækkað mikið á seinustu árum. Í því skyni hefur Greiningar- og ráðgjafarstöð fengið Dr. Elínu Þöll Þórðardóttur en hún verður með erindi föstudaginn 10. maí sem ber heitið Tvítyngi og þroskafrávik í máli; mikilvægi snemmtækrar íhlutunar. Elín Þöll er prófessor í talmeinafræði við McGill háskóla í Montreal og fræðimaður við ReykjavíkurAkademíuna

Hér má sjá nánari upplýsingar um ráðstefnuna og hér má sjá dagskrá hennar.