Ársskýrsla Ráðgjafar- og greiningarstöðvar fyrir árið 2022 liggur nú fyrir

Ársskýrsla Ráðgjafar- og greiningarstöðvar fyrir árið 2022 liggur nú fyrir á vef stöðvarinnar.

Lög stofnunarinnar breyttust 1. janúar 2022 og við þau tímamót breyttist nafn Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins í Ráðgjafar- og greiningarstöð, samhliða nýju og breyttu hlutverki. Mánuði síðar varð breyting á skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta og við það færðist stofnunin frá félagsmálaráðuneytinu til mennta- og barnamálaráðuneytisins. Á haustmánuðum urðu síðan enn önnur tímamót en þá flutti starfsemin í nýtt og heppilegra húsnæði í Dalshrauni í Hafnarfirði eftir 34 ára veru á Digranesvegi í Kópavogi. M.a. vegna flutninganna var gerð gangskör í að ganga frá skjölum og prentgögnum Ráðgjafar- og greiningarstöðvar (áður Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins) til varðveislu á Þjóðskjalasafni.

Þrátt fyrir að tilvísunum hafi fækkað á milli ára fjölgaði börnum á biðlista eftir þjónustu og höfðu húsnæðishrakningar þar talsverð áhrif, þar sem ekki var hægt að taka á móti börnunum á meðan á flutningum stóð. Á seinustu árum hefur hátt hlutfall tilvísana verið vegna barna sem eiga erlent foreldri, annað eða bæði. Á árinu 2022 var hlutfallið 36% og komu fjölskyldurnar frá 42 löndum.

Í ár hefur verið lögð á innleiðingu nýrra og breyttra laga, m.a. með mótun stefnu og aðgerðaráætlunar á grunni hennar.

Árskýrslur RGR má sjá hér