Tákn með tali

Tákn með tali (TMT) er tjáskiptaaðferð sem upphaflega var þróuð fyrir nemendur með mál- og þroskaröskun. Aðferðin byggir á einföldum hreyfitáknum sem notuð eru á markvissan hátt til stuðnings töluðu máli. Um er að ræða náttúruleg tákn svo sem bendingar, látbragð og svipbrigði að viðbættum táknum úr táknmáli heyrnarlausra. Áherslan er lögð á að tákna lykilorð hverrar setningar. TMT nýtist fólki á öllum aldri sem hefur tal- og málörðugleika af öðrum orsökum en heyrnarleysi. Undanfarin ár hefur komið í ljós að aðferðin nýtist vel í fjölmenningarlegu umhverfi til dæmis í leik- og grunnskólum. Aðferðin er málörvandi fyrir öll ung börn og því óhætt að hvetja foreldra og kennara ungra barna að nota TMT sem skemmtilegt málörvunartæki sem um leið hjálpar þeim sérstaklega sem á þurfa að halda.

                  
 Takk fyrir mig              Ég vil borða               Mér er kalt

TMT er ávallt notað samhliða tali enda er markmiðið að kenna viðkomandi að tjá sig og skilja íslenskt talmál. Táknin gera málið sýnilegt og styðja þannig við töluðu orðin. Táknin vara lengur en orðin sem hverfa um leið og þau eru sögð. Það gefur viðkomandi lengri tíma til að skilja það sem sagt er. Táknin eru oftast myndræn og lýsandi og því auðskilin. TMT er í raun eðlilegt framhald af þeim tjáningarmáta sem flest ung börn hafa og ráða við löngu áður en þau hafa þroska til að mynda töluð orð.

Orð og hugtök sem nýtast við leit á netinu:

TMT=Tákn með tali
TTT=Tegn til tale (danska)
TTT=Tecken till tal (sænska)
TSS=Tecken som stöd (sænska)
Key word signing (enska)
Baby signs (enska)
Signing for hearing (enska)

Tenglar 

www.tmt.is
www.teckna.se
www.isaac-sverige.se
www.ask-loftet.no
www.babysignlanguage.com

Ýmislegt um TMT er að finna inn á heimasíðum ISAAC (International Society for Augmentative and Alternative Communication):

www.isaac-online.org

Noregur: www.isaac.no
Danmörk: www.isaac.dk
Svíþjóð: www.isaac-sverige.se
Finnland: www.papunet.net/isaac 

Íslenskt efni:

TMT orðabók Tákn með tali - Orðabók með fræðslu, gefin út af Námsgagnastofnun ríkisins. Höfundar: Sigrún Grendal Magnúsdóttir og Björk Alfreðsdóttir. Teiknari táknmynda: Sigurborg I. Sigurðardóttir

TMT vefur TMT tölvuforrit - Forritið er á vef Menntamálastofnunar og inniheldur leiðbeiningar, forritið sjálft og þau tákn sem koma fyrir í TMT. Höfundur: Indriði Björnsson.

Í símann: Tákn með tali app sem hægt er að hlaða niður í síma. Smellið hér til að ná í appið. 

Það er upplagt að nota TMT forritið þegar verið er að útbúa ýmis konar kennsluefni svo sem einstaklingsmiðaðar TMT orðabækur, merkja fatahólf barnanna í leikskólanum, setja tákn við söngtexta og fleira.Táknmyndirnar eru svart-hvítar og skýrar í útprentun. Vert er að hafa í huga að táknmyndirnar eru fyrst og fremst hugsaðar fyrir fullorðna fólkið til að skilja og læra ný tákn. Börnin læra táknin á því að sjá þau notuð í daglegum samskiptum og aðstæðum heima, í skólanum og samfélaginu. 

TMT að syngja

 

tmt.is Forritið tmt.is byggir á táknunum sem finnast í Tákn með tali (orðabókinni) og tilheyrandi tölvuforriti. Hér eru táknin í lit og með hreyfingu. Skemmtilegt forrit til að skoða á netinu. Hægt er að prenta táknin út.

 

TMT orðabókin mínTMT orðabókin mín er lítið hefti sem Sigrún Grendal gerði fyrir þá sem eru að byrja að kenna og nota TMT með ungum börnum. Um er að ræða einföld tákn sem tengjast daglega lífinu. Upplagt er að hafa þessi tákn sem viðmið um fyrstu tákn barnsins. Þeim fylgja einfaldar myndir (Picture Communication Symbols) sem geta hjálpað þeim aðstandendum sem ekki skilja íslenska textann sem er við hvert tákn. Heftið nýtist fjölskyldunni og þeim sem eru að vinna með barnið í skóla og frístundum. Auðvelt er að bæta við texta á öðrum tungumálum.

TMT námskeið: Á heimasíðu Greiningarstöðvarinnar er að finna upplýsingar um þau TMT námskeið sem haldin eru á vegum stofnunarinnar. Auk þeirra auglýstu námskeiða sem haldin eru er fjöldinn allur af TMT námskeiðum haldinn sérstaklega fyrir ákveðna hópa og stofnanir sem þess óska. Nánari upplýsingar má fá á fræðslu- og kynningarsviði Greiningar- og ráðgjafarstöðvar með því að senda tölvupóst á fraedsla@rgr.is eða hringja í síma 510 8400.

©Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins,
Sigrún Grendal Magnúsdóttir talmeinafræðingur, febrúar 2018.