Námskeiðsdagskrá RGR á vorönn

Námskeiðsdagskrá Ráðgjafar- og greiningarstöðvar á vorönn 2023 er aðgengileg á vef stöðvarinnar. Alls verða 23 námskeið kennd á tímabilinu frá 9. janúar til 27. apríl 2023; allt námskeið sem henta aðstandendum barna með þroskafrávik og fatlanir sem og fagfólki sem vinnur með börnum.

Flest námskeiðin hafa löngu fest sig í sessi svo sem Einhverfurófið – grunnnámskeið, Atferlisíhlutunarnámskeið fyrir börn með þroskafrávik og mörg fleiri. Nýtt námskeið verður á dagskrá vorannar um Downs heilkennið sem byggt er á eldra námskeiði en það verður haldið á alþjóðlega Downs deginum 21. mars á næsta ári. Námskeiðið Ungmenni með einhverfu og önnur þroskafrávík er komið aftur á dagskrá þann 27. apríl eftir stutt hlé, nú í einn dag í stað tveggja áður og með ívið breyttu sniði. Ráðgjafar- og greiningarstöð vekur einnig athygli á hinu sívinsæla Tákn með tali námskeiði en á vorönn verða haldin tvö slík námskeið, annað haldið í Verkmenntaskólanum á  Akureyri þann 31. janúar og hitt haldið í Gerðubergi í Reykjavík þann 8. febrúar. 

Sjón er sögu ríkari, hér má sjá námskeið vorannar Ráðgjafar- og greinngarstöðvar.

Vorráðstefna Ráðgjafar- og greiningarstöðvar 2023

Stærsti viðburðurinn á fræðsludagskrá Ráðgjafar- og greiningarstöðvar á vorönn er sem fyrr hin árlega vorráðstefna stöðvarinnar en hún verður haldin 11. og 12. maí 2023, allan fimmtudaginn og fram að hádegi á föstudeginum, á Hilton Reykjavik Nordica hótelinu eins og áður en undirbúningur ráðstefnunnar stendur yfir. Yfirskrift ráðstefnunnar í ár verður Fagmennska og framsækni í þjónustu við börn með fatlanir.
Sem fyrr er gert ráð fyrir að þátttakendur geti tekið þátt bæði nær og fjær, þ.e. á staðnum og á fjarfundi.