Skipulagsbreytingar á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins

Á undanförnum mánuðum hefur verið unnið að breytingum á starfsháttum og skipulagi Greiningar- og ráðgjafarstöðvar. Nýtt skipurit gekk í gildi 1. janúar s.l., en unnið verður að innleiðingu þess á næstu vikum og mánuðum.

Helstu breytingarnar eru þær að í stað þess að skipta starfseminni eftir megin fötlunargreiningum í fagsvið hreyfi- og skynhamlana, fagsvið einhverfu og fagsvið þroskahamlana tekur nýtt skipurit mið af aldri barns. Auk þessa fær eftirfylgd barna með alvarlegar og sjaldgæfar fatlanir aukið vægi í starfseminni. Ekki verða breytingar á markhópi stofnunarinnar, en unnið áfram eftir þeirri meginreglu að börn með alvarlegustu færniskerðingarnar til lengri tíma njóti forgangs að þjónustunni.

Nýju fagsviðin eru þrjú, fagsvið yngri barna, fagsvið eldri barna og fagsvið langtímaeftirfylgdar. Starfinu á hverju fagsviði er síðan skipt niður á tvær til þrjár skorir. Fræðslu- og rannsóknarstarf stöðvarinnar fær einnig aukið vægi með þessum breytingum með stofnun fræðslusviðs og rannsóknarsviðs (sjá nánar meðfylgjandi skipurit).

Nánari upplýsinga um röðun sérfæðinga á nýju fagsviðin er að vænta hér á heimasíðunni á næstunni. Unnið er að gerð nýrrar heimasíðu sem tekur mið af breyttu skipulagi og kemst hún í loftið með hækkandi sól.

Við biðjumst velvirðingar á ef þið verðið fyrir einhverjum óþægindum á þessum tímamótum og biðjum ykkur um að sýna viðleitni okkar við að bæta starfsemi Greiningarstöðvar skilning.

Smellið á myndirnar hér fyrir neðan til þess að skoða nánar.

Slide 1     Slide 2