Uppáhaldsorðin eru nú til á íslensku

Eitt af uppáhaldsorðunum 6 er FJÖLSKYLDA
Eitt af uppáhaldsorðunum 6 er FJÖLSKYLDA

Ingveldur K Friðriksdóttir sjúkraþjálfari hjá Ráðgjafar- og greiningarstöð og Björg Guðjónsdóttir sjúkraþjálfari hjá Námsbraut í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands hafa þýtt skjöl um uppáhaldsorð í þroska barna sem nýtast foreldrum og fagfólki sem tengist börnum með fatlanir. Á ensku nefnast þau F-words. Í ljósi þess að eitt orðið á íslensku byrjar á „v“ (Vinir) ákváðu Ingveldur og Björg að kalla þau „uppáhaldsorð“ eins og gert er á mörgum öðrum tungumálum.

Rosenbaum og Gorter hjá Canchild stofnunarinnar í Hamilton í Kanada birtu fyrstu greinina um uppáhaldsorðin "The 'F-words' in Childhood Disability: I swear this is how we should think!". Þar settu höfundar fram sex orð sem þeir töldu að ættu að vera áhersluorð í fötlunum barna: Færni, fjölskylda, form, fjör, vinir og framtíð. Öll sex orðin ættu að hafa sama vægi.

Uppáhaldsorðin byggja á hugmyndafræðilegum ramma um Alþjóðlegt flokkunarkerfi um færni, fötlun og heilsu (ICF) frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO). Fræðilegi ramminn byggir á þeirri heildarnálgun að færni samanstendur af þáttunum líkamsbygging, líkamsstarfsemi, athafnir og þátttaka sem allir tengjast. Heilsa, umhverfi og einstaklingsbundnir þættir hafa síðan áhrif á færni. Þessi heildarnálgun hvetur til að áhersla sé lögð á mikilvæga þætti í þroska alla barna þ.e. athafnir, þátttöku og umhverfi.

Ingveldur og Björg segja að uppáhaldsorðin og markviss notkun þeirra stuðli að auknum skilningi og bættum samskiptum milli fjölskyldna fatlaðra barna og fagfólks. Þær hvetja alla sem vinna með börnum til að nota uppáhaldsorðin. Íslensku þýðingarnar má finna á vef Canchild hér.

Nánari upplýsingar um Uppáhaldsorðin má finna hér.