Um 200 manns sóttu vorráðstefnu Greiningarstöðvar

Fráfarandi forstöðumanni voru færðar þakkirHelgi Hjörvar fjallaði um Samning SÞ um réttindi fatlaðs fólksÓlafur Snævar sagði frá sinni sýn á lífið

Vorráðstefna Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins sem haldin var 12. og 13. maí síðastliðinn var vel sótt. Ráðstefnan var sú 31. í röðinni og að þessu sinni var umfjöllunarefnið „Litróf fatlana – Sjaldan er ein báran stök“  en Greiningarstöðin fagnar einmitt 30 ára starfsafmæli í ár. Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra setti ráðstefnuna. Í ávarpi sínu færði hún Stefáni J. Hreiðarssyni barnalækni og sérfræðingi í fötlunum barna sem nýlega lét af störfum sem forstöðumaður stofnunarinnar sínar bestu þakkir. Fram kom að Stefán hefur staðið við stjórnvölinn frá upphafi og með framsýni sinni og metnaði gert Greiningarstöðinni kleift að vaxa og dafna og verða sú mikilvæga þjónustu- og þekkingarmiðstöð á landsvísu sem hún er. Ráðherra minntist einnig á að framundan væru engu að síður brýn verkefni, margt þyrfti að bæta þegar kæmi að þriðja stigs þjónustu fyrir börn og ungmenni sem glíma við samsettan vanda í taugaþroska, fatlanir og geðraskanir og vitnaði þar í nýlega skýrslu Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu barna og unglinga. Nauðsynlegt væri að efla samstarf milli stofnana og koma upp teymum í hverjum landshluta til að styrkja og þróa sérfræðiþjónustu í nærsamfélagi barna og fjölskyldna. Nýr forstöðumaður Greiningarstöðvar, Soffía Lárusdóttir væri kona með langa reynslu og þekkingu á þeim viðfangsefnum sem nú væru á hennar borði og hún tæki við faglega sterku búi sem skipað væri reynslumiklu og vel menntuðu fólki sem hefði sérþekkingu á fötlunum barna og ungmenna (hér má finna ræðu ráðherra í heild sinni).

Litróf fatlana frá ýmsum sjónarhornum
Litróf fatlana var viðfangefni þessarar ráðstefnu. Haldnir voru fræðilegir fyrirlestrar um nýjungar í erfðafræðirannsóknum og um sjaldgæfa sjúkdóma. Rannsóknir og þróunarverkefni af ýmsum toga voru kynnt. Ungt fatlað fólk deildi lífsýn sinni og reynslu af þjónustu og fjallaði um mikilvægi þátttöku í samfélaginu. Foreldri fatlaðs barns ræddi sjónarmið sín og reynslu af samskiptum við þjónustukerfin. Að hlusta á notendur gefur innsýn í aðstæður þeirra og áskoranir og mikilvægt er að nýta þær upplýsingar til að bæta og þróa þjónustu sem mætir þörfum fólks. Fjallað var um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en markmið hans er að tryggja jöfn mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk. Samningurinn byggir á hugmyndafræði um samspil einstaklings og umhverfis og mikilvægi þess að ryðja úr vegi samfélagslegum hindrunum sem torvelda þátttöku fatlaðra. Hann er því leiðarljós allra sem starfa í þjónustu við fatlað fólk. Þáttur teymisvinnu var einnig kynntur og rætt hvernig breytt verklag getur leitt til meiri árangurs og ánægðari notenda. Breytt vinnubrögð kosta sjaldnast mikið en geta skilað talsverðum árangri.

Hagnýt þekking og nýsköpun í tækni
Í málstofum var einnig boðið upp á hagnýta fyrirlestra um mismunandi íhlutun og meðferðarúrræði sem miða að því að styrkja börn og ungmenni til að takast á við daglegt líf. Þar getur snemmtæk íhlutun og markviss ráðgjöf gegnt lykilhlutverki. Þótt nýsköpun og tækni sé tiltölulega ný af nálinni í velferðarþjónustu á Íslandi munu tækni- og tæknitengdar lausnir verða notaðar í náinni framtíð í ríkara mæli til þess að styrkja getu fatlaðs fólks til sjálfshjálpar, samfélagsþátttöku og aukinna lífsgæða.  Á ráðstefnunni var fjallað um það hvernig tæknin getur hjálpað til við kennslu og þjálfun, til framdráttar fyrir einstaklinga með skerta færni. Ýmis fyrirtæki og samtök kynntu einnig vörur sínar og þjónustu og gátu ráðstefnugestir prófað ólíkar lausnir sem ætlaðar eru til að efla færni fatlaðra í daglegu lífi og auka þátttöku þeirra í samfélaginu.

Eftirfylgni er mikilvæg
Í lok ráðstefnunnar ávarpaði Soffía Lárusdóttir þátttakendur. Hún fjallaði um að greining fatlaðra barna, rannsóknir, ráðgjöf og eftirfylgd væru meginhlutverk Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins. Greiningin veitti mikilvægar upplýsingar um getu og möguleika barnsins og legði drög að þeim íhlutunum sem er grunnur að frekari þroska þess. Góð greining væri mikilvæg en eftirfylgni, og það sem tekur við væri ekki síst mikilvægt. Þar reyndi á þá sem standa fatlaða barninu næst svo og nærumhverfið að styðja það til þroska og undirbúa til þátttöku í lýðræðissamfélagi. Samvinna og samstarf greiningaraðila og þeirra sem starfa á vettvangi og virkur stuðningur við foreldra, með hagsmuni barnsins að leiðarljósi, leggur grunn að því að vel takist til. Þar skiptir miklu að fagfólk og aðrir sem veita barninu og fjölskyldu þess þjónustu búi yfir þekkingu, reynslu og getu til að takast á við fjölbreytt og stundum krefjandi úrlausnarefni. Á vorráðstefnunni mætast þessir aðilar, þeir miðla þekkingu og deila reynslu í þeim tilgangi að vera færari í sínum daglegu störfum. 

Hlutverk Greiningar- og ráðgjafarstöðvar verður styrkt
Soffía nefndi einnig að í máli ráðherra hafi meðal annars komið fram að í nýrri framkvæmdaáætlun um málefni fatlaðs fólks sem lögð verður fram á Alþingi í haust, séu áherslur sem án efa geta orðið til þess að styrkja og styðja við þjónustuhlutverk Greiningar- og ráðgjafarstöðvar. Sett verða markmið um hámarksbið eftir greiningu og aðgerðir til að ná því markmiði. Jafnframt er lögð áhersla á að styrkja hlutverk stofnunarinnar á sviði ráðgjafar og fræðslu ásamt því að henni verði gert kleift að sinna aldurshópnum 18 – 24 ára. Síðast en ekki síst er áhersla á að stofna landshlutateymi. Allt eru þetta þættir sem til framtíðar litið eiga að styrkja Greiningarstöð í því hlutverki að veita fötluðum börnum og ungmennum og fjölskyldum þeirra þjónustu sem bæta lífsgæði þeirra og möguleika til virkar þátttöku í samfélaginu. Það eru því spennandi en um leið krefjandi tímar framundan, sagði Soffía að lokum. Þess má geta að glærur frá ráðstefnunni verða aðgengilegar á heimasíðu Greiningarstöðvar innan skamms.

Samantekt: Þóra Leósdóttir, maí 2016

Kynning á vörum og þjónustuMargt var um manninnSoffía Lárusdóttir forstöðumaður sleit ráðstefnunni