Viðmið um þjónustu við börn með þroskahömlun í grunnskólum

Þroskahömlun einkennist af skertum vitsmunaþroska og skertri aðlögunarfærni. Þroskahömlun er skilgreind sem fötlun og felur í sér alvarlega námserfiðleika. Börn með þroskahömlun þurfa því aðlagað námsefni, sérkennslu og stuðning til að taka þátt í almennu bekkjarstarfi. Erfiðleikar í samskiptum við jafnaldra eru algengir og því er oft þörf fyrir félagslegan stuðning í skólanum.Ýmsar fylgiaskanir eru einnig algengar hjá börnum með þroskahömlun sem oft þarf að meðhöndla sérstaklega.

Þjónustuteymi
Mikilvægt er að stofnað sé teymi þeirra sem koma að þjónustu við barnið og fjölskyldur þess. Í slíku teymi er gert ráð fyrir foreldrum, starfsfólki skóla til dæmis umsjónarkennara, sérkennara, þroskaþjálfa, stuðningsfulltrúa og skólastjórnanda eða fulltrúa hans auk ráðgjafa viðkomandi sveitarfélags. Aðrir sérfræðingar, svo sem iðjuþjálfar, sjúkraþjálfarar og talmeinafræðingar, eru kallaðir til eftir þörfum. Samstarf við foreldra og virk þátttaka þeirra í þjónustuteyminu er afar mikilvæg. Vel hefur reynst að þjónustuteymið haldi reglulega fundi, til dæmis á 1-2 mánaða fresti. Æskilegt er að starfsmaður skóla sinni hlutverki tengils. Í því felst að hafa umsjón með teymisvinnu og að áætlunum sé fylgt eftir.

Einstaklingsnámsskrá
Mikilvægt er að útbúa einstaklingsnámsskrá sem tekur mið af stöðu barns, styrkleikum og veikleikum á mismunandi sviðum. Gera þarf áætlun og skýr markmið fyrir hvert fag, einnig fyrir sérgreinar. Auk annarra markmiða í aðalnámsskrá þarf einstaklingsnámsskráin að fela í sér eftirfarandi færnisvið:

-  Félagsfærni og þátttaka í í leik og starfi
-  Færni við athafnir daglegs lífs (sjálfshjálp, klukka, peningar o.s.frv.)

Meta þarf færni barns reglulega og fylgjast með hvort markmiðum einstaklingsnámskrár er náð og endurskoða kennsluaðferðir ef tilskyldum árangri er ekki náð. Æskilegt er að mat á árangri og endurskoðun einstaklingsnámsskrár fyrir börn með þroskahömlun fari fram á 3-6 mánaða fresti.

Fræðsla
Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins býður reglulega upp á hagnýt námskeið fyrir aðstandendur og fagaðila sem sinna þjónustu við börn og ungmenni með þroskahömlun og aðrar þroskaraskanir.

-  Kynning á þroskahömlun í grunnskólum
-  Börn með þroskafrávik ? nám, hegðun og félagsleg þátttaka í grunnskóla
-  Jákvæðar leiðir til bættrar hegðunar
-  Ráðagóðir kennarar
-  Skipulögð kennsla (TEACCH)
-  Atferlisþjálfun
-  Ráðagóðir foreldrar
-  Foreldra- og fjölskyldufræðsla
-  Downsheilkenni
-  Prader-Williheilkenni
-  Williamsheilkenni