Ýmis verkefni starfsmanna Greiningarstöðvar

Starfsfólk Greiningarstöðvar hefur öllu jafna næg verkefni í vinnu sinni á stofnuninni. Starfsmenn stofnunarinnar eru einnig ötulir við að sinna öðrum verkefnum, s.s. rannsóknum, gerð fræðsluefnis og ritun fræðilegra vísindagreina svo eitthvað sé nefnt.

Nú í desember birtist grein eftir sálfræðingana Kristjönu Magnúsdóttur og Evald Sæmundsen í tímaritinu Research in Autism Spectrum Disorders. Greinin nefnist „The impact of attention deficit/hyperactivity disorder on adaptive functioning in children diagnosed late with autism spectrum disorder - A comparative analysis“.

María Jónsdóttir félagsráðgjafi hlaut á dögunum 700.000 króna styrk frá Eygló Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra. Styrkurinn nýtist til að koma á fót myndskreyttum fræðsluvef um kynheilbrigði fyrir unglinga og fullorðið fólk með þroskafrávik.

Marrit Meintema sjúkraþjálfari og Solveig Sigurðardóttir barnalæknir verða báðar með erindi á alþjóðlegri ráðstefnu í Stokkhólmi í júní á næsta ári. Ráðstefnan nefnist „International conference on cerebral palsy and other childhood-onset disabilities“. Marrit mun segja frá meistararannsókn sinni um Spina Bifida og Solveig fjallar um faraldsfræði CP á Íslandi.

Sigríður Lóa Jónsdóttir sálfræðingur hlaut á dögunum 500.000 króna styrk frá Velferðarráðuneyti. Styrkurinn er í flokki gæðaverkefna þar sem áhersla er á verkefni sem miða að nýbreytni í verklagi innan heilsugæslunnar. Sigríður Lóa er í doktorsnámi við Háskóla Íslands og þessi hluti rannsóknar hennar beinist að því að skoða hvort fræðsla um einhverfu og notkun sérhæfðs skimunartækis stuðli að því að borin verði kennsl á einhverfu hjá börnum í smá- og ungbarnavernd fyrr en nú er raunin. Rannsóknin er á vegum Greiningarstöðvar og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Við óskum þeim öllum til hamingju með árangurinn og fylgjumst spennt með áframhaldinu.