Vorráðstefna Greiningar- og ráðgjafarstöðvar hefst á morgun!

Vorráðstefna Greiningar- og ráðgjafarstöðvar verður haldin á morgun fimmtudaginn 29. apríl . september og föstudaginn 30. apríl. Ráðstefnunni verður alfarið streymt frá Hilton Reykjavík Nordica hótelinu. Ráðsstefna þessi er stærsti faglegi vettvangur þeirra sem tengjast börnum með þroskafrávik. Yfirskrift ráðstefnunnar að þessu sinni er Börn með fatlanir – viðhorf og valdefling. Um 330 manns hafa skráð sig á vorráðstefnuna sem haldin er í 36. sinn.

Tengillá streymi verður sendur í dag, miðvikudaginn 28. apríl á alla þátttakendur ásamt lykilorði fyrir streymið. Þátttakendur eru beðnir um að kanna hvort pósturinn gæti hafa lent í ruslahólfi tölvupóstsforrita þar sem hann er sendur á stóran hóp fólks. Ef þátttakandi fær ekki tengil má senda tölvupóst á audur.a.albertsdottir@greining.is. 

Fjallað verður um fjölbreyttar birtingarmyndir þroskahömlunar og hvernig framfarir í erfðafræði geta nýst við ráðgjöf og meðferð þroskaraskana. Sjaldgæfir fötlunarhópar fá rými í dagskránni m.a. verður sagt frá þjónustu fyrir blind og sjónskert börn og kynntar niðurstöður tilviksrannsóknar um lífsgæði heyrnarlausra barna og unglinga. Til umfjöllunar verður kynheilbrigði og kynfræðsla, leiðir fyrir fötluð ungmenni til samskipta gegnum tölvu- og hlutverkaleiki og kynntar nýjungar í upplýsingatækni við stuðnings- og sérkennslu.

Á ráðstefnunni verða viðhorf og valdefling fatlaðra barna í brennidepli. Kynnt verður verkefni sem unnið var á vegum Embættis umboðsmanns barna sem kallast Raddir fatlaðra barna. Eiður Welding fötlunarfræðari segir frá sinni reynslu, fulltrúar úr Ungmennaráði Þroskahjálpar kynna sín áherslumál og Atli Lýðsson mun segja frá fjölskyldubúðum sem haldnar voru í Vík í Mýrdal síðastliðið sumar. Ingólfur Einarsson barnalæknir á Greiningar- og ráðgjafarstöð fjallar um nýjungar á sviði þroskahömlunar og einnig má nefna erindi Hans Tómassonar, prófessors við HÍ og yfirlæknir í klínískri erfðafræði við LSH um framfarir í erfðafræði og aukna þekking á orsökum og meðferð þroskaraskana.

Eins og undanfarin ár verða málefni innflytjenda til umfjöllunar og sagt frá rannsókn á börnum af erlendum uppruna sem hafa fengið þjónustu á Greiningar- og ráðgjafarstöð. Rannsóknir um snemmtæka íhlutun barna á leikskólaaldri og skimun fyrir einhverfu í ung- og smábarnavernd verða kynntar, sagt frá hugmyndum að nýju vinnulagi í samstarfi GRR og sveitarfélaga og hvaða tækifæri felast í lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

Sjá dagskrá hér.