Tjáskiptatölva í gjöf frá Öryggismiðstöð Íslands

Greiningar- og ráðgjafarstöð (GRR) barst á dögunum góð gjöf frá Öryggismiðstöð Íslands en það var fyrrverandi starfsmaður Greiningar- og ráðgjafarstöðvar og núverandi starfsmaður Öryggismiðstöðvarinnar, Hrönn Birgisdóttir iðjuþjálfi, sem kom færandi hendi og gaf stofnuninni Tobii Dynavox Indi tjáskiptatölvu með íslenskum talgervli

Öryggismiðstöðin vill styðja við það faglega starf sem unnið er á Greiningar- og ráðgjafarstöð með þessari gjöf. Sigrún Grendal talmeinafræðingur hjá GRR hefur unnið mikið með þessa tegund af tjáskiptatölvu og fylgt eftir þó nokkrum börnum sem hafa fengið hana úthlutaða frá Sjúkratryggingum Íslands en hún er í nánu samstarfi við Öryggismiðstöðina. Um er að ræða Tobii Indi tjáskiptatölvu sem er sérhæfð tölva til tjáskipta með snertiskjá og öflugum hátalara sem hentar einstaklingum sem geta ekki tjáð sig á hefðbundinn hátt. Í tölvunni eru uppsett tjáskiptaforritin Snap Core First og Communicator og íslenskur talgervill sem hægt er að nýta til myndrænna tjáskipta.

Tjáskiptatölva sem þessi nýtist vel mörgum einstaklingum sem geta notað myndir til tjáskipta. Með forritunum sem henni fylgja er hægt að útbúa tjáskiptatöflur með þarfir hvers og eins í huga. Fyrir þann sem nýtir tölvu með íslenskum talgervli til tjáskipta er afar hvetjandi að hafa nú fengið rödd sem heyrist. Nú þurfa viðmælandur, sem í tilfelli Greiningar- og ráðgjafarstöðvar eru börn með fötlun og þroskahamlanir, ekki nauðsynlega að standa yfir viðkomandi til að sjá það sem sagt er heldur er hægt að heyra það jafnvel þó staðið sé í einhverri fjarlægð. Á Greiningarstöðinni mun nýja Indi tölvan nýtast til að prófa væntanlega notendur og meta þörf þeirra fyrir slíkt tæki.

 Á myndinni má sjá  Hrönn Birgisdóttir afhenda Sigrúnu Grendal tjáskiptatölvuna.