Það styttist í Vorráðstefnu Ráðgjafar- og greiningarstöðvar!

Ávarp barnamálaráðherra á vorráðstefnunni 2020
Ávarp barnamálaráðherra á vorráðstefnunni 2020

Það styttist í Vorráðstefnu Ráðgjafar- og greiningarstöðvar en ráðstefnan verður haldin á Hilton Nordica hótelinu í Reykjavík þann 12. og 13. maí nk. Skráningar ganga vel og stefnir í metmætingu eftir fundabann faraldursins. Vonast aðstandendur ráðstefnunnar og fyrirlesarar til þess að fagfólk, sem sinnir fræðslu og umönnun barna með þroskaröskun og/eða fötlun, sem og aðstandendur og háskólanemar í fræðunum, muni hittast, fræðast og gleðjast saman á ráðstefnunni. Boðið verður upp á streymi fyrir þau sem ekki eiga heimangengt. 

Á ráðstefnunni verður virkni og velferð barna með fatlanir í brennidepli. Íþróttastarf fyrir fötluð börn verður kynnt og foreldrar segja frá sinni reynslu. Dr. Valgerður Jónsdóttir mun miðla af reynslu sinni af tónlistarkennslu fyrir börn með sérþarfir. Dr. Erla Björnsdóttir fjallar um mikilvægi svefns og svefnraskanir og Herdís I. Svandóttir kynnir atferlisíhlutun við svefnvanda. Tryggvi Helgason barnalæknir mun fjalla um áskoranir tengdar ofþyngd og hreyfingarleysi og Sigrún Þorsteinsdóttir kynnir doktorsverkefni sitt um bragðlaukaþjálfun sem meðferð við matvendni.

Covid-19 hefur nú í tvö ár haldið samfélaginu í heljargreipum og verða kynntar niðurstöður rannsóknar á áhrifum samkomutakmarkana á líðan barna með sérþarfir. Dr. Brynjar Halldórsson mun kynna foreldramiðaða meðferð við kvíða hjá 6-12 ára börnum. Eins og undanfarin ár verða málþroskaraskanir og áskoranir barna af erlendum uppruna til umfjöllunar. Kynnt verða ný fræðslumyndbönd fyrir fjölskyldur erlendra barna sem RGR hefur þróað og gerð grein fyrir niðurstöðum meistaraverkefnis í talmeinafræði um tengsl einhverfu og enskunnar.

Samþætting þjónustu fyrir börn sem byggir á nýjum farsældarlögum og nánara samstarfi þjónustukerfa verður til umfjöllunar. Soffía Lárusdóttir forstjóri mun kynna breytingar á lögum um RGR og breyttar áherslur í starfi stofnunarinnar og Hákon Sigursteinsson kynnir verkefnið Betri borg fyrir börn. Gerð verður grein fyrir niðurstöðum nýrrar rannsóknar á stuðningsþörfum mikið fatlaðra barna sem Langtímaeftirfylgd RGR stendur fyrir og foreldri mun lýsa sinni reynslu af kerfinu. Þessi upptalning dagskrárliða er ekki tæmandi og er óskandi að dagskráin falli í góðan jarðveg. 

Skráning fer fram hér (neðst á síðunni).

Dagskrá ráðstefnunnar er hér.