Tákn með tali á Akureyri og AEPS, færnimiðað matskerfi í Reykjavík á næstunni

Ráðgjafar – og greiningarstöð vekur athygli á tveimur vinsælum námskeiðum sem kennd verða á næstunni. Annars vegar Tákn með tali sem að þessu sinni verður kennt á Akureyri 31. janúar og hins vegar AEPS, færnimiðað matskerfi sem kennt verður 30. og 31. janúar í Reykjavík.

Tákn með tali er ætlað þeim sem áhuga hafa á að kynna sér TMT tjáskiptaaðferðina og fjölbreytta notkun hennar. Sérstaklega á það við um starfsfólk leikskóla, grunnskóla og annara stofnana þar sem þörf er á skýru málumhverfi. Ástæður geta til dæmis verið seinkaður málþroski, fötlun eða fjölmenningarlegt málumhverfi.  Aðferðin hefur einnig nýst börnum vel sem eru með erlent móðurmál og þurfa að aðlagast nýju málumhverfi. Jafnframt hefur TMT verið notað í auknum mæli til almennrar málörvunar fyrir ung börn bæði hér á landi og erlendis. TMT byggist á því að tákn, látbragð, svipbrigði og bendingar eru notuð á ákveðinn hátt samhliða tali.

AEPS, færnimiðað matskerfi er ætlað fagfólki sem starfar við ráðgjöf, þjálfun eða kennslu 0-6 ára barna með þroskafrávik. Sérstaklega er mælt með þessu námskeiði fyrir sérkennslustjóra leikskóla. AEPS-matskerfið (Assessment, Evaluation, Programming System for Infants and Children) er hagnýtt tæki sem nýtist við gerð einstaklingsnámskrár. Lögð er áhersla á samstarf foreldra og fagfólks við gerð markmiða og sérstakur matslisti fyrir foreldra fylgir. Á námskeiðinu verður farið yfir hvernig AEPS-matskerfið nýtist til að meta færni barna á sex þroskasviðum: Fín- og grófhreyfingum, vitrænum þáttum, aðlögun, félagslegum tjáskiptum og félagslegu samspili. Þátttakendur fá kennslu í að leggja listann fyrir,  nýta niðurstöður við gerð einstaklingsnámskrár og skipuleggja íhlutun í framhaldinu.

Hér eru nánari upplýsingar og skráning fyrir AEPS, færnmiðað matskerfi. (athugið að skráning á biðlista er tekin gild. Haft verður samband við þátttakendur með tölvupósti) 

Hér eru nánari upplýsingar og skráning fyrir Tákn með tali á Akureyri. (athugið að skráning á biðlista er tekin gild. Haft verður samband við þátttakendur með tölvupósti)