Starfslok forstöðumanns Greiningar- og ráðgjafarstöðvar

Stefán J. Hreiðarsson barnalæknir var skipaður forstöðumaður Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins 1. janúar 1986 og hefur gegnt því starfi óslitið síðustu 30 ár. Um síðastliðin áramót urðu tímamót þegar hann lét af störfum sem forstöðumaður. Fram á vor mun hann þó sinna afmörkuðum verkefnum í þágu stofnunarinnar.

Þegar Stefán hóf störf voru starfsmenn Greiningarstöðvar 21 talsins en í dag eru þeir tæplega 60. Starfsemin hefur breyst töluvert á þessum tíma en enn er til staðar sú sýn sem lagt var upp með í upphafi, þ.e. að tryggja að börn og ungmenni með alvarlegar þroskaraskanir sem leitt geta til fötlunar, fái greiningu, ráðgjöf og önnur úrræði sem miða að því að draga úr afleiðingum röskunarinnar. 

Auglýst hefur verið eftir nýjum forstöðumanni og þegar þetta er skrifað hafa þrettán aðilar sótt um starfið. Ekki er búið að skipa nýjan stjórnanda stöðvarinnar en á meðan svo er, hefur Solveig Sigurðardóttir barnalæknir verið settur forstöðumaður.

Starfsfólk Greiningarstöðvar þakkar Stefáni gott samstarf sl. 30 ár og óskar honum velfarnaðar á öðrum vettvangi.