Staða ungs fólks með örorku- eða endurhæfingarlífeyri

Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands hefur skilað niðurstöðum rannsóknar sem gerð var fyrir velferðarráðuneytið til að fá innsýn í aðstæður ungs fólks með örorku- eða endurhæfingarlífeyri, kanna reynslu þess af stuðningi sem það hefur fengið og fá ábendingar um hvað betur má fara.

Rannsóknin beindist að fólki á aldrinum 18-39 ára með geðraskanir og stoðkerfisvanda samkvæmt örorkuskrá Tryggingastofnunar. Niðurstöður leiddu meðal annars í ljós að sú fjölgun ungra öryrkja sem átt hefur sér stað á undanförnum árum hefur fyrst og fremst verið í hópi þeirra sem eru með meðfæddar þroskaraskanir (svo sem einhverfu eða þroskahömlun) fremur en þeirra sem hafa vegna stoðkerfis- eða geðsjúkdóma þurft að hverfa frá námi eða starfi. Þetta er meðal annars rakið til mikillar fjölgunar einhverfugreininga á undanförnum árum.

Í niðurstöðum könnunarinnar eru tilgreindir þættir þar sem bæta megi þjónustu við hóp ungs fólks með örorku- eða endurhæfingarlífeyri.

Skýrsluna í heild sinni má finna hér

Byggt á frétt af vef velferðarráðuneytisins, tengill hér