Samstarfssamningur um mótun landshlutateymis í málefnum fatlaðra barna á Suðurlandi

Verkefnastjórar þróunarverkefnisins
Verkefnastjórar þróunarverkefnisins

Nýr samstarfssamningur um mótun landshlutateymis á Suðurlandi hefur verið undirritaður. Um er að ræða tveggja ára þróunarverkefni í samræmi við Framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks 2017 – 2021 sem miðar að því að styrkja grunnþjónustu í héraði.  Aðilar að samningnum eru Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Fjölskyldusvið Árborgar, Félags- og skólaþjónusta Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu og Velferðar- og skólaþjónusta Árnesþings.

Landshlutateymið byggir á þverfaglegu samstarfi þar sem fulltrúar félags-, skóla- og heilbrigðisþjónustu frá hverju svæði mynda samstarfsteymi með það að markmiði að stuðla að heildstæðri þjónustu við fötluð börn með sértækar þarfir og fjölskyldur þeirra. Tilgangur teymisins er einnig  að auka samvinnu og samráð á milli Greiningar- og ráðgjafarstöðvar og þjónustuaðila í heimabyggð við greiningarferli, eftirfylgd, íhlutunarleiðir, ráðgjöf og skipulag fræðslu til að stuðla að sérhæfðri þekkingaruppbyggingu. 

Sigríður O. Guðjónsdóttir frá Greiningar- og ráðgjafarstöð og Kristín Björk Jóhannsdóttir frá Fjölskyldusviði Árborgar hafa verið ráðnar sem verkefnastjórar verkefnisins. Sigríður er iðjuþjálfi að mennt með viðbótarmenntun í sérkennslufræðum. Hún hefur víðtæka reynslu af vinnu með börnum með fatlanir og fjölskyldum þeirra hér á landi, í Noregi og Danmörku. Kristín Björk er þroskaþjálfi og kennari að mennt auk þess að vera með viðbótarmenntun í fötlunarfræðum og ráðgjöf. Hún hefur starfað um árabil við sérdeild Suðurlands  sem þroskaþjálfi, kennari, við ráðgjöf og sem deildarstjóri.