Ráðstefna um félagslega hugsun

Um 200 manns munu sækja ráðstefnu um félagslega hugsun á Grand Hóteli Reykjavík dagana 2. og 3. október næst komandi. Fyrirlesari er bandaríski talmeinafræðingurinn Michelle Garcia Winner en hún hefur þróað kenningar og aðferðir til að efla félagsfærni hjá börnum og fullorðnum sem glíma við erfiðleika í félagslegum samskiptum vegna þroskaraskana af einhverjum toga. 

Þátttakendur koma víða að en ráðstefnan er ætluð fagfólki, aðstandendum, fólki með hamlandi vanda í félagsfærni og öðrum þeim sem hafa áhuga á eða starfa með börnum, unglingum eða fullorðnum með frávik í félagsþroska til dæmis vegna einhverfu, ADHD, óyrtra eða félagslegra námserfiðleika.

Hvað er félagsleg hugsun?
Það er það sem við gerum þegar við eigum samskipti við annað fólk: við hugsum um það. Hvernig við hugsum um aðra hefur áhrif á hvernig við hegðum okkur, sem aftur hefur áhrif á hvernig fólk bregst við okkur, sem svo hefur áhrif á okkar eigin tilfinningar. Hvort sem við erum með vinum, í skólanum, á vinnustað, sendum tölvupóst eða kaupum í matinn, þá meðtökum við (oftast ómeðvitað) hugsanir, tilfinningar og ætlanir þeirra sem við eigum í samskiptum við.
Þar sem félagsleg hugsun er hluti af heilastarfsemi og ferli sem gerist nokkuð af sjálfu sér þá tökum við því oftast sem sjálfsögðum hlut. Því er þó ekki þannig háttað hjá öllu fólki og það hefur ekkert með greind að gera eins og hún mælist á hefðbundnum greindarprófum. Staðreyndin er sú að margir mælast með greind yfir meðallagi en hafa samt sem áður ekki náð tökum á þeim blæbrigðum sem félagslegt samspil felur í sér. Slíkt getur valdið margvíslegum vanda og félagslegum árekstrum í daglegu lífi, skóla eða vinnustað og þátttöku í samfélaginu.

Um fyrirlesarann
Michelle er frumkvöðull á sínu sviði og þróaði hugtakið félagslega hugsun (e. Social Thinking®) um miðjan tíunda áratuginn. Hún hefur sérhæft sig í þjálfun og kennslu einstaklinga með hamlandi erfiðleika í félagslegu samspili. Íhlutunarleiðir þróaðar af Michelle hafa það markmið að efla færni fólks í félagslegri hugsun, óháð þeim greiningum sem liggja að baki. Eftir hana liggja bækur og annað hagnýtt kennsluefni fyrir fagfólk, einstaklinga og foreldra.

Ráðstefnan er samstarfsverkefni Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, Einhverfusamtakanna, Fjölskyldudeildar Akureyrarbæjar og Menntasviðs Kópavogsbæjar.

Bent er á vefsíðu um félagslega hugsun: www.socialthinking.com. Skráning fer fram hjá Iceland Travel gegnum www.greining.is og þátttökugjald er kr. 17.000.