Ráðstefna BUGL 2021 um einhverfu

Hin árlega BUGL-ráðstefna Landspítala var haldin föstudaginn 29. janúar í opinni útsendingu á samfélagsmiðlum Landspítala og er ráðstefnan aðgengileg eftir á, á Facebook síðu spítalans. Yfirskrift ráðstefnunnar var  "Ég má vera öðruvísi: Margbreytileiki einhverfurófsins". Fjallað var um einhverfu frá ýmsum sjónarhornum. Meðal annarra fluttu þær Guðrún Þorsteinsdóttir sviðsstjóri Eldri barna sviðs og Emilía Guðmundsdóttir sálfræðingur hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð erindið: Hvað er framundan í greiningum á einhverfu hjá börnum og ungmennum á Íslandi?
BUGL hefur mörg undanfarin ár staðið fyrir árlegum ráðstefnum af þessu tagi þar sem markmiðið er að efla samvinnu milli þeirra aðila í heilbrigðis-, félags- og menntakerfinu sem sinna þjónustu fyrir börn og unglinga með geðraskanir. Auk þess er markmiðið að vekja athygli á rannsóknum og nýjum úrræðum í meðferð barna og unglinga með geðraskanir.
Fyrirlesarar hafa komið víða að og verið bæði innlendir og erlendir. Ráðstefnan er ætluð starfsfólki; heilsugæslu, þjónustumiðstöðva, félagsþjónustu, barnaverndar, skóla og öðrum sem hafa áhuga.