Ráðagóðir kennarar

Hverjum er námskeiðið ætlað?
Námskeiðið er ætlað grunnskólakennurum og öðrum starfsmönnum grunnskóla sem eru með umsjón barna með röskun á einhverfurófi.

Hámarksfjöldi þátttakenda
Á þessu námskeiði er hámarksfjöldi þátttakenda 18.

Lýsing
Börn með þroskaraskanir eru líklegri en önnur börn til að sýna erfiða hegðun. Það gerir kennslu þeirra oft á tíðum krefjandi. Kennarar eyða miklum tíma í að stjórna hegðun og það tekur áherslu frá náminu. Hvernig er hægt að fyrirbyggja það? Á námskeiðinu verða kenndar hagnýtar leiðir til árangurs.

Fjallað verður um hegðun barna á einhverfurófi, æskilega og óæskilega hegðun og hvernig hægt er að auka jákvæða hegðun nemenda. Ennfremur verður rætt um umbunarkerfi í skólum, kosti þeirra og galla og mismunandi útfærslur.

Æskilegt er að þeir kennarar eða starfsmenn grunnskóla sem nýta umbunarkerfi (stjörnukerfi, hvatakerfi) hafi þau meðferðis. Námskeiðið byggist á hugmyndafræði hagnýtrar atferlisgreiningar og er í formi fyrirlestra og umræðna.

Markmið
Að þátttakendur:

  • þekki hagnýtar leiðir til að auka jákvæða hegðun nemenda á einhverfurófi
  • fái aukið sjálfstraust til að takast á við áskoranir sem tengjast hegðun nemenda

Umsjón
Sigurrós Jóhannsdóttir, sálfræðingur.