Okkar eiginn Evald hlýtur heiðursverðlaun

Evald Sæmundsen, starfandi rannsóknarstjóri hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð,  MA í sálfræði, MSc í taugasálfræði barna og PhD í líf- og læknavísindum hlaut heiðursverðlaun Sálfræðingafélags Íslands en þau voru afhent á Sálfræðiþingi þann 12. apríl síðastliðinn.

Sálfræðingafélag Íslands auglýsir á hverju ári eftir tilnefningum frá félagsmönnum og er þetta í fimmta sinn sem þessi verðlaun eru veitt. Skorað er á félagsmenn að senda inn tilnefningar um sálfræðinga sem eiga skilið virðingarvott fyrir störf sín, hafa innleitt nýjungar og/eða þróað verkefni í þágu sálfræðinnar, hafa skarað fram úr og verið öðrum fyrirmynd í starfi. Niðurstaða tilnefninga í ár var sú að Evald Sæmundsen skyldi hljóta verðlaun; hann væri vel að þeim kominn þar sem framlag hans til fagsins undanfarna áratugi hafi verið ómetanlegt með tilliti til umfangsmikillar rannsókna, kennslu og fagmennsku í starfi.

Evald hóf að stunda á nám í sálfræði á Íslandi í árdaga sálfræðináms við Háskóla Íslands og lagði að auki stund á framhaldsnám í Frakklandi og Hollandi. Auk þess lauk hann doktorprófi frá Læknadeild Háskóla Íslands árið 2008. Fjallaði ritgerð hans um Einhverfu á Íslandi – algengi, greiningartæki, framvindu og tengsl einhverfu við flog hjá ungabörnum. Ásamt þessu öðlaðist Evald starfsréttindi sem sálfræðingur árið 1980 og sérfræðiréttindi árið 1993.

Á Sálfræðiþinginu kom fram í máli í máli Bóasar Valdórssonar varaformanns SÍ að Evald væri að öðrum ólöstuðum einn helsti sérfræðingur Íslands á sviði einhverfurófsraskanna. Hann hefur starfað á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins frá því þeirri stofnun var komið laggirnar 1986 og hefur hann gegnt þar veigamiklu hlutverki í vinnu við greiningu á börnum með einhverfurófsraskanir, sinnt ráðgjöf til foreldra, skóla, ýmissa stofnanna, ráðuneyta og innan félagslega kerfisins. Ennfremur kom fram í máli Bóasar að Evald hafi verið öflugur í rannsóknarstarfi og að eftir hann og samstarfsfélaga hans liggi fjölmargar ritrýndar greinar sem birtar hafa verið í alþjóðlegum fræðiritum. Niðurstöðum sínum hefur Evald miðlað í gegnum árin í fjölda greina í fjölmiðlum og með fræðsluerindum á ráðstefnum fyrir sérfræðinga og almenning. Evald hefur einkum sinnt rannsóknum á faraldsfræði einhverfu síðustu ár. Er það fyrir hans tilstilli að einhverfa er nokkurn vegin eina röskunin sem við höfum áreiðanlegar íslenskar tölur um varðandi tíðni og þróun síðustu áratugi.

Vert er að nefna að árið 2014 ritstýrði Evald ásamt Sigríði Lóu Jónsdóttur sálfræðingi bókinni „Litróf einhverfunnar“ sem er eitt yfirgripsmesta rit um einhverfu sem skrifað hefur verið á Íslandi. Að lokum sagði í áliti Sálfræðifélagsins að það væri ljóst að Dr. Evald Sæmundsen hafi sinnt starfi sínu af stakri natni svo eftir hefur verið tekið í gegnum árin og að samstarfsfólk hans sé honum þakklátt fyrir vel unnin störf og fagmennsku.