Nýr vefur með fræðsluefni um samskipti og kynheilbrigði

Nýr vefur leikni.is
Nýr vefur leikni.is

Vakin er athygli á nýjum vef þar sem finna má fræðsluefni um samskipti og kynheilbrigði. Í kynningu segir meðal annars að fræðsla og forvarnir séu mikilvægt tæki til að efla þátttöku fatlaðs fólks og leiðbeina því í hinu margbreytilega samfélagi sem við búum í.

Fræðsla stuðlar að vitund og þekkingu á því sem felst í mannréttindum, hvað er æskileg hegðun í ólíkum aðstæðum og hvað ber að varast í flóknum heimi samskipta og samskiptamiðla. Fræðsluefni af þessu tagi þarf að vera auðlesið, myndskreytt og einstaklingsmiðað því hefðbundin framsetning hentar ekki alltaf fólki með frávik í taugaþroska.

Vefurinn: www.leikni.is er hugsaður til að bæta úr skorti á fræðsluefni um samskipti og kynheilbrigði fyrir þennan hóp, aðstandendur og leiðbeinendur. Þar má meðal annars finna myndskreyttar lífsleiknisögur og ráðleggingar um þætti sem gott er að hafa í huga þegar verið er að fjalla um viðkvæm og persónuleg mál.

Forsíða www.leikni.is