Ný grein sem byggir á skimunarrannsókn um einhverfu

Tveir sérfræðingar um einhverfu sem starfa á Greiningar- og ráðgjafarstöð, þau Sigríður Lóa Jónsdóttir og Evald Sæmundsen, birtu nýlega grein í Journal of Autism and Developmental Disorders  sem byggir á skimunarrannsókn þeirra. Meðhöfundar eru þeir Brynjólfur Gauti Jónsson og Vilhjálm Rafnsson hjá Háskóla Íslands. Rannsóknin er hluti af doktorsverkefni Sigríðar Lóu sem ber heitir Að bera kennsl á einhverfu snemma en greinin ber heitið; Validation of the Modified Checklist for Autism in Toddlers, Revised with Follow‑up in a Population Sample of 30‑Month‑Old Children in Iceland: A Prospective Approach.

Sigríður Lóa hélt erindi á vorráðstefnu GRR í lok maí sl. og kynnti helstu niðurstöður þessarar rannsóknar og annarra rannsókna sinna sem byggja á skimunarverkefninu, en þær eru m.a. þessar:

  • Viðhorf til skimunar fyrir einhverfu í ung- og smábarnavernd voru almennt jákvæð
  • Þörf er á reglubundinni fræðslu um einhverfu í ung- og smábarnavernd
  • Skimun fyrir einhverfu með M-CHAT-R/F gátlistanum til viðbótar við almennt eftirlit með þroska stuðlar að því að einhverfa finnist fyrr hjá fleiri börnum en ella
  • Skoða þarf betur ástæður þess að það fannst  lægra algengi einhverfu utan höfuðborgarsvæðisins
  • Lýðheilsufræðilegur ávinningur skimunar fyrir einhverfu verður ekki fyllilega ljós fyrr en síðar þegar upplýsingar eru fyrirliggjandi um langtímaárangur barna sem fundust við skimun samanborið við þau sem fundust eftir hefðbundnu verklagi

Hér má sjá greinina í Journal of Autism and Developmental Disorders