Ný evrópsk rannsókn um þjónustuferli ungra einhverfra barna

Nýlega birtist grein í tímaritinu Autism sem nefnist: Determinants of satisfaction with the detection process of autism in Europe: Results from the ASDEU study. Tveir starfsmenn Ráðgjafar- og greiningarstöðvar, þau Evald Sæmundsen rannsóknarstjóri og Sigríður Lóa Jónsdóttir sálfræðingur, eru meðhöfundar, en greinin er einn afrakstur áralangs Evrópusamstarfs, Autism Spectrum Disorders in the European Union (ASDEU).

Rannsóknin sem greinin byggist á er framhald fyrri rannsóknar sömu höfunda (Bejarano-Martín et al., 2020) þar sem viðhorf foreldra ungra einhverfra barna og fagfólks til þjónustu voru könnuð, en um var að ræða þjónustu frá því grunur um einhverfu vaknaði, svo greiningu og íhlutun. Í nýju rannsókninni (Gullion et al., 2022) er sjónum hins vegar beint að því að skoða hvaða þættir spá fyrir um ánægju foreldra með þetta þjónustuferli og að meta vægi þeirra.

Niðurstöður sýndu helst að leiðsögn og stuðningur sem foreldrar fá strax í kjölfar þess að áhyggjur vakna, spáir best fyrir um ánægju þeirra með það þjónustuferli sem síðan tekur við og vegur þyngst. Þeir þættir sem tengdust minni ánægju voru meðal annars erfiðleikar með að finna upplýsingar um hvert væri hægt að leita með áhyggjur af þroska barnsins, þegar ekki var tekið undir fyrstu áhyggjur, þegar foreldrar þurftu sjálfir að leita eftir greiningu, svo og ef meira en fjórir mánuðir liðu frá því áhyggjur voru staðfestar og þar til sérfræðingur skoðaði barnið nánar eða greining fór fram.