Niðurstöður úttektar á þjónustu við fatlað fólk í Hveragerðisbæ

Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar (GEF) hefur unnið úttekt á þjónustu við fatlað fólk í Hveragerðisbæ og liggja niðurstöður nú fyrir. Í úttektinni var m.a. kannað hvernig þjónustu við fatlað fólk í Hveragerðisbæ hafi verið og er háttað og hvort sveitarfélagið hafi farið að réttum stjórnsýslureglum við undirbúning ákvarðana varðandi þjónustu við fatlað fólk og framkvæmd hennar.

Mikill meirihluti notenda í sveitarfélaginu er undir 18 ára aldri eða samtals 21 (81%) og í öllum tilvikum nema einu var það aðstandandi notanda sem svaraði spurningakönnun sem lá til grundvallar á úttektinni. 

Tildrög úttektarinnar voru erindi frá Öryrkjabandalagi Íslands og Landssamtökunum Þroskahjálp sem Réttindavakt velferðarráðuneytisins framsendi GEF með bréfi í júní sl. Þar var óskað eftir því að þjónusta Hveragerðisbæjar við fatlað fólk yrði tekin til skoðunar í kjölfar ábendinga sem borist höfðu Öryrkjabandalaginu og Þroskahjálp. Ábendingar bárust einnig frá réttindagæslumanni fyrir hönd foreldra tveggja barna vegna þjónustu sveitarfélagsins við þau. Viðtöl voru tekin við foreldrana tveggja barna til að dýpka niðurstöður símakönnunarinnar og rætt við félagsráðgjafa hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

Hér má lesa niðurstöður úttektarinnar: Þjónusta við fatlað fólk í Hveragerðisbæ