Námskeiðsdagskrá vorannar tilbúin og vorráðstefna í undirbúningi

Námskeiðsdagskrá vorannar Greiningar- og ráðgjafarstöðvar 2022 er nú aðgengileg á vef stöðvarinnar. Alls verða 26 námskeið kennd á tímabilinu frá 10. janúar til 10. júní 2022; allt námskeið sem henta aðstandendum barna með þroskaröskun og fatlanir sem og fagfólki sem vinnur með börnum.

Flest námskeiðin hafa löngu fest sig í sessi svo sem Einhverurófsröskun – grunnnámskeið, Atferlisíhlutunarnámskeið fyrir börn með þroskafrávik og fleiri. Námskeiðið Ráðagóðir kennarar hefur fengið yfirhalningu og ber nú heitið Skólafólk, ráð og leiðir en tvö ný námskeið eru á dagskrá vorannar; annars vegar Allt um ástina, sem er ætlað kennurum og starfsfólki sem kennir í framhaldsskólum og svo námskeiðið Náttúruleg kennsla en þar er fjalla um hvernig hægt að nýta náttúrlega kennslu til að ýta undir þroska barnsins.

Sjón er sögu ríkari, hér má sjá námskeið vorannar Greiningar og ráðgjafarstöðvar.

Vorráðstefnan 2022: Börn með fatlanir – Virkni og velferð 

Stærsti viðburðurinn á fræðsludagskrá Greiningar- og ráðgjafarstöðvar er hinsvegar árleg vorráðstefna stöðvarinnar sem haldin verður 12. og 13. maí 2022. Um þessar mundir er unnið hörðum höndum að undirbúningi hennar og er vonast til að hún geti verið haldin staðbundið á Hilton Reykjavik Nordica eins og áður, en í ár (2021) var hún alfarið haldið rafrænt og í fyrra (2020) var hún haldin bæði staðbundið og í fjarfundi. Það hefur gefist vel að senda ráðstefnuna út rafrænt fyrir þau sem ekki eiga heimangengt og því verður stefnt að rafrænni útsendingu ráðstefnunnar til þeirra sem þess óska. 

Yfirskrift vorráðstefnu Ráðgjafar- og greiningarstöðvar, sem verður nýtt nafn stofnunarinnar frá og með 1. janúar 2022, er: Börn með fatlanir – Virkni og velferð