Námskeið á næstunni

Vorönnin er hafin hjá okkur og á næstu vikum og mánuðum verða fjölbreytt námskeið á dagskrá. Við bendum á námskeiðið „Klókir krakkar“ sem hefst þriðjudaginn 6. febrúar n.k. en það námskeið er fyrir 11-13 ára börn með greiningu á einhverfurófi og foreldra þeirra. Hér má finna upplýsingar um námskeiðið. Einnig erum við með námskeiðið „Klókir litlir krakkar“ en það er ætlað foreldrum barna með greiningu á einhverfurófi á aldrinum 4-8 ára barna. Allar upplýsingar um námskeiðið má finna hér.

Síðasta vetur bættist námskeiðið „Ungmenni með einhverfu og önnur þroskafrávik“ við í námskeiðsflóruna okkar en á því er m.a. fjallað um ódæmigert þroskaferli, styrkleika, áskoranir og hvernig það er að vera öðruvísi. Komið er inn á áhrifaþætti varðandi sjálfsmynd, líðan, samskipti og tengsl við geðheilsu svo sem kvíða og þunglyndi og farið yfir samspil þroska og færni í daglegu lífi og hvernig skipulag og aðlögun umhverfis getur stuðlað að aukinni þátttöku og lífsgæðum ungmenna í þessum hópi. Á þessari önn erum við í samstarfi við Símenntun HA og 12. - 13. febrúar verður námskeiðið haldið á Akureyri. Allar nánari upplýsingar má finna hér. Námskeiðið verður einnig haldið í Gerðubergi 1. og 2. mars n.k. og hér má finna nánari upplýsingar.

Næsta grunnnámskeið um Röskun á einhverfurófi verður 23. mars, námskeiðið Skipulögð kennsla verður 12. - 14. mars, Tákn með tali 19. mars og Atferlisíhlutun fyrir börn með þroskafrávik verður 17. - 18. maí n.k.

Að lokum minnum við á Vorráðstefnuna en í ár verður hún 26.-27. apríl á Hilton Reykjavík Nordica.Í ár er yfirskrift ráðstefnunnar: Mátturinn í margbreytileikanum! Einhverfa og skyldar raskanir - þekking og leiðir í þjónustu við börn og ungmenni. Við munum setja inn nánari upplýsingar mjög fljótlega og skráning hefst um miðjan febrúar.

Bestu kveðjur frá Fræðslu- og kynningarsviði