Námskeið á Akureyri

Föstudaginn 21. febrúar verður námskeiðið „Röskun á einhverfurófi, grunnnámskeið“ haldið í samstarfi við Símenntun Háskólans á Akureyri.

Námskeiðið er ætlað aðstandendum og starfsfólki sem sinnir umönnun, þjálfun og kennslu barna á einhverfurófi.

Fjallað er um einhverfurófið, helstu einkenni einhverfu og birtingarform þeirra, greiningu, álag á fjölskylduna og samstarf foreldra og fagfólks. Námskeiðið byggist aðallega á fyrirlestrum og umræðum, auk fræðslumyndbanda. Námskeiðið er hugsað sem fyrsta skrefið í fræðslu um einhverfu og grunnur að öðrum námskeiðum með afmarkaðari viðfangsefnum. Kennslu- og meðferðarleiðir verða til dæmis ekki kynntar á þessu námskeiði.

Markmið námskeiðsins er að þátttakendur:

  • auki þekkingu sína á einhverfurófinu
  • þekki hvað felst í greiningu á einhverfu
  • auki skilning sinn á þörfum þessa hóps barna og fjölskyldna þeirra og hvað felst í góðri þjónustu
  • þekki mikilvægi samstarfs fagfólks og foreldra

Hér eru nokkur ummæli frá þátttakendum námskeiðsins:

  • Ég lærði ótrúlega mikið á námskeiðinu.  Fyrirlesararnir komu allar sínu efni mjög vel til skila.
  • Gott að fá innsýn í mismunandi hluti eftir því hvort um ræðir barn/nemanda, foreldra og kennara. Gott að heyra líffræðilegar skýringar. Gott að vita um álagið og allar tilfinningarnar. Öllum upplýsingum pakkað í góðan pakka og ekki of langt. Tíminn leið hratt og aldrei óáhugavert að hlusta.
  • Væri til í að allir kennarar, starfsmenn leik og grunnskóla, stjórnendur og aðstandendur færu á námskeiðið. Þarna er mikið af upplýsingum sem gefa góða innsýn í heim einhverfra og foreldra þeirra og systkina.
  • Vel skipulagt, fyrirlesarar með mikla þekkingu

Allar nánari upplýsingar og skráning á námskeiðið fer fram á heimasíðu Símenntunar, sjá nánar hér.