Rafrænt fræðsluefni á þremur tungumálum á vef RGR

Eliza Reid talsetti hluta myndbanda á vegum RGR
Eliza Reid talsetti hluta myndbanda á vegum RGR

Þrjú myndbönd á þremur tungumálum um 1) ferlið frá því að grunur vaknar um frávik í þroska, 2) snemmtæka íhlutun og réttindi og 3) úrræði á Íslandi sem kynnt voru á vorráðstefnu  Ráðgjafar- og greiningarstöðvar (RGR) í maí sl. eru nú aðgengileg á vef stofnunarinnar sem og annað efni, bæði upptökur og glærur, sem kynnt voru á ráðstefnunni í vor.

Myndböndin þrjú voru hluti af kynningu Evu Daggar Gylfadóttur sálfræðings og Auðar Sif Arnardóttur þroskaþjálfa sem báðar starfa á RGR en þær fluttu erindið Börn af erlendum uppruna – rafrænt fræðsluefni fyrir foreldra í málstofu B fimmtudaginn 12 maí sl. Þar kynntu þær íslenskan hluta myndbandanna en þau hafa nú verið gefin út á bæði ensku og pólsku og er ætlunin að gefa þau út á fleiri tungumálum til að koma betur til móts við þarfir foreldra barna með fötlun sem eru af erlendum uppruna. Til gamans má nefna að það var forsetafrúin, Eliza Reid, sem talsetti enska útgáfu myndbandanna. 

Einnig eru á vefsíðu vorráðstefnunnar tvö myndbönd sem tengjast könnun sem Langtímaeftirfylgd RGR stóð að meðal foreldra um aðstæður foreldra fatlaðra barna. Til að dýpka niðurstöður könnunarinnar voru tekin upp viðtöl við foreldra sem njóta þjónustu í langtímaeftirfylgd RGR. Í öðru myndbandinu heyrum við viðtal við Gyðu S. Björnsdóttur og Ólaf J. Engilbertsson um skammtímadvöl og liðveislu en í hinu myndbandinu heyrum við viðtal við Hildi Brynju Sigurðardóttur og Ellert G. Guðmundsson Notenda persónuleg aðstoð (NPA). Myndbandið við Hildi og Ellert var spilað á ráðstefnunni en ekki viðtalið við Gyðu og Ólaf vegna tæknilegra vandræða í myndvinnslunni.

Hér má sjá umrædd myndbönd sem og glærur og upptökur af ráðstefnunni í vor .