Málþing um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) til framtíðar

Þann 17. nóvember næst komandi verður haldið málþing um NPA en tilraunaverkefni um þetta form á þjónustu rennur út í lok þessa árs. Rýnt verður í reynsluna af verkefninu frá ólíkum sjónarhornum og horft til framtíðaruppbyggingar. Málþingið fer fram á Icelandair Hotel Reykjavík Natura.

NPA byggist á hugmyndafræðinni um sjálfstætt líf. Hugmyndafræðin gerir skýrar kröfur um að notandi aðstoðarinnar ráði því hvernig staðið er að framkvæmd hennar. NPA er því á margan hátt umbreyting á framkvæmd og skipulagi innan velferðarþjónustunnar. Þessi breyting gerir miklar kröfur til notenda, aðstoðarfólks og þeirra sem annast umsýslu með framkvæmd aðstoðarinnar.

Málþingið er haldið á vegum velferðarráðuneytisins í samvinnu við Verkefnisstjórn um NPA. Aðgangur er ókeypis og öllum opinn en þátttakendur þurfa að skrá sig og fer skráningin fram á vef ráðuneytisins. Allar nánari upplýsingar um málþingið og skráningu má finna hér.